Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands sem stýrði kosningabaráttu Pírata í síðustu sveitarstjórnarkosningum ásamt öðrum, segir engan í röðum Pírata sem hann þekki ganga að kosningasigri flokksins sem vísum. Kosningaþáttaka ungs fólks, þar sem stuðningur við Pírata mælist mjög mikill, hafi verið mjög léleg í sveitarstjórnarkosningunum í Reykjavíkur 2014, þar sem einungis 40 prósent ungs fólks undir 30 ára hafi kosið. Kosningasigrar vinnist ekki í sýndarveröld netheima heldur með ötulli vinnu margra í „kjötheimum“. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Svanur birti á Facebook í gær. Þar segir einnig: „Þegar upp er staðið skipta „likes" og pistlar á netinu (eins og þessi)fremur litlu. Atkvæðin í kjörkössunum skipta þar öllu máli. Nenni unga fólkið ekki að kjósa sigra flokkar hins gamla Íslands.“
Yfir helmingur ungs fólks ætlar að kjósa Pírata
Píratar hafa nú mælst stærsti flokkur landsins, og með meira en 30 prósent fylgi, í meira en ár. Fylgið hefur verið að aukast undanfarna mánuði og í síðustu könnunum hefur það mælst á bilinu 35 til 42 prósent.
Í könnun MMR sem gerð var á tímabilinu 12. til 20. janúar 2016 var greint hvernig fylgi flokka skiptist milli ýmissa hópa, meðal annars aldurshópa. Þar koma fram að meira en helmingur ungs fólks, á aldrinum 18 til 29 ára segjast myndu kjósa Pírata í næstu Alþingiskosningum, eða 54 prósent. 15 prósent aðspurðra í sama aldurshópi segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Fylgi annarra flokka meðal ungs fólks mældist undir tíu prósentum; Samfylking er með fjögur prósenta fylgi, Vinstrihreyfingin - grænt framboð með níu prósent, Framsóknarflokkur með sex prósent, Björt framtíð fimm prósent og „annað” með sex prósent.
Fylgi Pírata er langmest í þessum aldursflokki sem, líkt og Svanur bendir á í pistli sínum, er ólíklegastur til að skila sér á kjörstað.