Barack Obama Bandaríkjaforseti mun óska eftir því við bandaríska þingið að það veiti 1,8 milljarða dala neyðarfjármagn til þess að berjast gegn útbreiðslu Zika-veirunnar. Veiran breiðist nú hratt út, ekki síst í Rómönsku-Ameríku, og er talin valda alvarlegum fæðingargalla, höfuðsmæðarheilkenni.
Flest smitin hafa orðið með moskítóflugum, en einnig eru dæmi um smit í gegnum kynmök. Fjármagnið sem Obama óskar eftir á að miklu leyti að fara í að hefta útbreiðslu moskítófluga og í rannsóknir á bóluefnum. Hvíta húsið segir að ætlunin sé að „bæta hæfni Zika-hrjáðra ríkja til að berjast gegn moskítóflugum og hafa betri stjórn á smitum.“
Veiran berst nú í nýja sjúklinga í 26 ríkjum í Ameríku, og 50 tilfelli hafa verið staðfest í Bandaríkjunum. Þau smit höfðu öll orðið hjá fólki sem hafði ferðast suður og komið til baka til Bandaríkjanna. Eitt tilvik var auk þess tilkynnt í Dallas í Texas í síðustu viku, og í því tilviki varð smit með kynmökum en ekki moskítóbiti.
Heilbrigðisyfirvöld óttast að með hlýnandi veðri á norðurhveli jarðar, og moskítóflugur vakni til lífsins, geti smitum fjölgað verulega, ekki síst í suðurríkjum Bandaríkjanna.
Lyfjastofnun Evrópu hefur einnig greint frá því að búið er að koma á laggirnar verkefnastjórn sem á að veita lyfjafyrirtækjum sem vinna að bóluefnum og lyfjum gegn veirunni ráðgjöf.