Landsfundur Samfylkingarinnar verður haldinn 4. júní næstkomandi. Í aðdraganda hans verður kosið um forystu flokksins.
Framkvæmdastjórn Samfylkingar ákvað á fundi sínum í dag að landsfundi skyldi flýtt, en það stendur í lögum flokksins að landsfund eigi að halda á tveggja ára fresti. Samkvæmt því hefði átt að halda hann á næsta ári. Ákveðið hefur verið að breyta þessu.
Mikil umræða hefur verið innan flokksins undanfarið varðandi landsfund og formannskosningar í ljósi slæms gengis Samfylkingar í ítrekuðum skoðanakönnunum undanfarnar vikur og mánuði.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, sagði fyrir nokkru að hann væri til í allsherjaratkvæðagreiðslu hvenær sem er og bjóst ekki við öðru en hann myndi bjóða sig fram áfram til formanns. En í fréttum Stöðvar 2 í kvöld sagðist hann ekki hafa gert upp hug sinn varðandi það og ætlaði að hugsa málið.
Sema Erla Sedar sagði við Kjarnann á mánudag að það væri kominn tími til að ljúka þessu máli sem hafi verið allt of lengi í bígerð.
Kristján Guy Burgess, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, sendi fjölmiðlum tilkynningu nú undir kvöld:
„Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar samþykkti í dag einróma að boða til landsfundar 4. júní næstkomandi. Í tengslum við fundinn fer fram allsherjaratkvæðagreiðsla um embætti formanns meðal allra flokksmanna, komi fram ósk um það í samræmi við lög flokksins, en Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem velur formann með beinni þátttöku allra félaga. Framkvæmdastjórn ákvað einnig að næsti reglulegi landsfundur yrði haldinn 10.-11. mars 2017, 6 vikum fyrir alþingiskosningar.
Framkvæmdastjórn telur að staðan í stjórnmálunum kalli á að sótt verði í kraftinn sem býr í 16.000 félögum í Samfylkingunni um allt land til að veita forystu flokksins umboð og leggja línurnar fyrir kosningar. Landsfundurinn verður notaður til að skerpa á málefnavinnu, ræða saman um kosningaáherslur, og til að sækja fram fyrir jafnaðarstefnuna," segir í tilkynningunni.
Þá segir að landsfundurinn verði aukalandsfundur sem boðað er til með löglegum 16 vikna fyrirvara.
„Það heimilar landsfundarfulltrúum að marka stefnu flokksins, gera lagabreytingar, koma fram með ályktanir og kjósa í laus embætti. Allir þeir sem kjörnir voru á landsfund ársins 2015, eiga sjálfkrafa seturétt auk þess sem heimilda verður leitað til að aðildarfélög fái að tilnefna upp í heildarfjölda þeirra fulltrúa sem þau hafa rétt á samkvæmt lögum flokksins, með það að markmiði að allir flokksfélagar sem áhuga hafa, geti sótt fundinn. Aukalandsfundur kemur ekki í stað reglulegs landsfundar sem halda skal annað hvert ár og verður næst haldinn í mars 2017.
Í ljósi þessarar ákvörðunar framkvæmdastjórnar verður á næstu dögum valin kjörstjórn sem mun stýra allsherjaratkvæðagreiðslu um embætti formanns og kosningum til annarra embætta sem verða laus á fundinum.“