Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu í gær að Ríkissjóður Íslands sé heimilt að eiga 20 prósent virkan eignarhlut í fjármögnunarfyrirtækinu Lýsingu hf. í gegnum óbeina hlutdeild. Eignarhluturinn fellur í skaut íslenska ríkisins vegna þess að slitabú Kaupþings mun framselja 17,58 prósent hlut sinn í Klakka ehf., eiganda Lýsingar, til Seðlabanka Íslands eða félags í hans eigu sem hluta af því stöðugleikaframlagi sem búið innir af hendi. Seðlabankinn, eða félag hans, mun fara með þann eignarhlut Ríkissjóðs. Frá þessu er greint á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.
Ríkissjóður og vogunarsjóður saman í eigendahópi
Í hluthafahópi Klakka, sem hét áður Exista, mun Ríkissjóður Íslands finna fyrir aðila sem áður hefur, að minnsta kosti í stjórnmálalegum tilgangi, verið málaður upp sem einn helsti andstæðingur íslensks efnahagslífs: vogunarsjóðinn Burlington Loan Management.
Burlington, sem er fjármagnaður og stýrt af bandaríska sjóðsstýringarfyrirtækinu Davidson Kempner, keypti í janúar 31,8 prósent hlut Arion banka í Klakka. Fyrir átti Burlington 13,2 prósent hlut í félaginu og því nemur eignarhlutur þess nú um 45 prósent. Kaupin voru gerð í nafni BLM Fjárfestinga ehf., íslensks dótturfélags Burlington. Sjóðurinn er stærsti erlendi kröfuhafi íslensks atvinnulífs.
Klakki er, líkt og áður segir, móðurfélag fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar, sem sérhæfir sig í að fjármagna atvinnutæki, atvinnuhúsnæði og bifreiðar fyrir fyrirtæki og einstaklinga.
Stöðugleikaframlög metin á 384,3 milljarða
Ríkið mun fá 384,3 milljarða króna í stöðugleikaframlög frá slitabúum föllnu bankanna. Langstærsti hlutinn er 288,2 milljarða framlag vegna viðskiptabankanna, þar af tæplega 185 milljarðar króna hlutafé í Íslandsbanka. 84 milljarðar koma til vegna veðskuldabréfs vegna Arion banka og 19,5 milljarðar vegna afkomuskiptasamnings vegna sölu Arion banka, en það er bókfært verð. Auk þess færast ýmsar eignir yfir til Ríkissjóðs, meðal annars eignarhlutur slitabús Glitnis í Lyfju og fimmtungshlutur slitabús Kaupþings í Klakka.
Heildarfjárhæð endurheimta kröfuhafanna, bæði innlendra og erlendra, af innlendum eignum slitabúanna er 497 milljarðar króna. Þar af er gert ráð fyrir að 131 milljarði króna verði skipt í erlendan gjaldeyri.
Það sem eftir stendur, 375 milljarðar króna, skiptast í gjaldeyrisinnlán, aðrar innlendar gjaldeyriseignir og skuldabréf Landsbankans til slitabús gamla Landsbankans.