Vísindamenn hafa í fyrsta sinn mælt þyngdarbylgjur og þar með fært sönnur á afstæðiskenningu Alberts Einsteins og varpað nýju ljósi á hið dularfulla þyngdarafl. Þetta er almennt álitin ein mesta uppgötvun vísindanna í langan tíma, og segir á vef The Guardian að um eina mestu uppgvötun aldarinnar sé að ræða.
Bylgjurnar urðu til við árekstur tveggja svarthola í órafjarlægð frá jörðu. David Reitze, framkvæmdastjóri LIGO tilkynnti um niðurstöður rannsóknanna á blaðamannafundi í Washington DC, höfuðborg Bandaríkjanna, í dag.
Hann sagði að þetta hefði mikla þýðingu fyrir heim vísindanna og að líklega þurfi ekki að bíða lengi eftir því að hlutir sjáist, sem enginn hefði getað hugsað sér að myndu sjást nokkru sinni.
Niðurstöðurnar eru í takt við það sem Einstein sagði fyrir fyrir tæpum hundrað árum og rennir enn frekari stoðum undir hina frægu afstæðiskenningu hans. Afar erfitt er að nema bylgjurnar og LIGO starfrækir risavaxnar rannsóknarstöðvar víða um heim, en tókst með þrotlausri vinnu að greina þær og rannsaka.