Ferðamönnum sem heimsóttu Íslands fjölgaði um 291 þúsund á síðasta ári. Það jafngildir því að um 88 prósent íslensku þjóðarinnar, sem telur 329.100 manns samkvæmt síðustu birtu tölum Hagstofu Íslands, myndi heimsækja landið til viðbótar við þá sem gerðu það árið 2014. Alls komu 1.289.140 ferðamenn til Íslands á árinu 2015, eða fjórum sinnum fleiri en búa á Íslandi. Þetta kemur fram í tölum Ferðamálastofu Íslands um fjölda erlendra ferðamanna sem birtar voru í morgun.
Til viðbótar komu 100.141 farþegar til Reykjavíkur með 108 skemmtiferðaskipum. Þar sem þeir dvelja ekki á landinu yfir nótt eru þeir taldir sérstaklega sem dagferðamenn. Alls nemur aukningin á milli ára 29,1 prósent.
Flestir koma frá Bandaríkjunum og gríðaleg fjölgun Kinverja
Meginþorri ferðamanna kemur til landsins með flugi í gegnum Keflavíkurflugvöll, eða 98 prósent þeirra.
Af þeim sem koma þá leið koma langflestir frá Bandaríkjunum (243 þúsund manns) eða Bretlandi (241 þúsund manns). Gestum frá þessum tveimur löndum fjölgar líka langhraðast, en gestum frá Bandaríkjunum fjölgaði um 60 prósent á milli ára og gestum frá Bretlandi um 33,5 prósent. Kínverjum fjölgaði einnig mikið, en alls heimsóttu 48 þúsund slíkir Ísland á árinu 2015. Það 83 prósent fleiri en gerðu það árið 2014. Gestum frá Noregi fækkaði hins begar um rúm tvö þúsund á milli ára og gestum frá Danmörku fjölgaði einungis um tvö prósent á milli ára.
Fjöldamet slegin í öllum mánuðum ársins 2015
Athygli vekur að fjöldamet voru slegin í öllum mánuðum ársins 2015. Aukining á milli ára fór yfir 30 prósent átta mánuði ársins en hún var hlutfallslega mest í október, þegar ferðamönnum sem komu til landsins um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um heil 49,3 prósent.
Í greiningu Ferðamálastofu segir að líklegt sé að ýmsir þætti hafi áhrif á þessa aukningu. „Þar má nefna árangur af umfangsmiklu markaðsstarfi og mikla fjölmiðlaumfjöllun um landið, ásamt jákvæðum áhrifum af hagstæðu gengi og auknu framboði á flugsætum."
Þá heldur ferðamönnum áfram að fjölga utan háannartíma. Í fyrra komu 40,2 prósent ferðamanna sem hingað komu yfir sumartímann en þeir höfðu verið 42,4 prósent af ferðamönnum árið áður. Mest var aukningi á gstum sem hingað koma á haustin, frá byrjun september og út októbermánuð. Þeim fjölgaði um heil 43,6 prósent á milli ára.