Verðmæti eigna Landsnets jóks mikið milli áranna 2014 og 2015, en virði tengivirkja og háspennulína, sem eru hluti af eignasafni fyrirtækisins, jókst um 23 milljarða króna. Þetta má lesa út úr ársreikningi Landsnets, en endurmat á eignum félagsins skilaði sér í þessum miklu breytingum. Háspennulínur eru metnar á 49,5 milljarða, samkvæmt ársreikningi fyrir árið í fyrra, en á árinu 2014 voru línurnar metnar á 37,5 milljarða. Þá eru tengivirki metin á 34 milljarða, samkvæmt ársreikningi fyrir árið í fyrra, en sömu eignir voru metnar á 23,2 milljarða í lok árs 2014.
Ástæðan fyrir endurmatinu á þessu eignum má rekja til endurmats til samræmis við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Við endurmatið var beitt tvenns konar aðferðum, samkvæmt skýringum í ársreikningi. Annars vegar var litið til áætlaðs endurbyggingarkostnaðar flutningskerfisins, sem var metinn af óháðum sérfræðingum í ársbyrjun 2015 og framreiknaður til ársloka 2015. Hins vegar var lagt mat á rekstrarvirði með sjóðstreymisgreiningu, framreiknað. Matstímabilið var frá 2016 til 2025 og eftir það reiknað framtíðarvirði rekstrar.
Endurmat ársins var byggt á rekstrarvirði núverandi eigna félagsins og gert ráð fyrir að fjárfestingar myndu jafngilda afskriftum núverandi eignastofns. „Núvirðing framtíðarsjóðstreymis var byggð á veginni meðalarðsemi (WACC) sem félaginu er úthlutað fyrir stórnotendur og dreifiveitur. Endurmatið fellur undir stig 3 í stigveldi gangvirðis,“ segir í skýringunum.
Þetta endurmat á eignum Landsnets stórbætir fjárhagslega stöðu félagsins, eins og gefur að skila. Reksturinn hefur staðið traustum fótum en ekki síst vegna endurmatsins á eignunum hækkar eiginfjárhlutfallið úr rúmlega 23 prósent í rúmlega 40 prósent.
Rekstrartekjur námu 16,1 milljarði króna árið 2015 á móti 14,3 milljörðum króna árið áður sem er tæplega 13 prósent hækkun og skýrist meðal annars af hagstæðri gengisþróun.
Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 7,5 milljörðum króna samanborið 6,2 milljarða króna árið áður. Hækkunin er um 1,3 milljarðar króna á milli ára og skýrist einnig af hagstæðri gengisþróun.
Lausafjárstaða félagsins var traust í árslok, en handbært fé í lok árs nam rúmlega átta milljörðum króna og handbært fé frá rekstri á árinu nam 8,1 milljarði.