Ólafur Ólafsson og Hreiðar Már Sigurðsson segja að hvorugur þeirra, né aðilar í þeirra umboði, hafi leitað með óformlegum hætti til Fangelsismálastofnunar um mitt ár 2015 vegna hugmynda um að reka og opna „lúxus" áfangaheimili fyrir sterkefnaða fanga, líkt og kom fram í frétt í Kvennablaðinu í gær. Þetta kemur fram í áréttingu sem þeir hafa sent frá sér.
Þar segir:„Fjölmiðlaumfjöllun um aðstæður fanga á Kvíabryggju hefur verið tíð undanfarna mánuði. Það er í sjálfu sér af hinu góða þótt ýmislegt hefur verið fullyrt sem ekki reynist svo fótur fyrir. Umræðan byggist þá of oft á misskilningi eða jafnvel hreinu slúðri. Æskilegra væri að fullyrðingar sem birtast í fjölmiðlum byggðust á staðreyndum. Það er sama hvað blaðamaður Kvennablaðsins segir að hann hafi talað við marga fyrir umrædda umfjöllun. Kjósi hann að veita viðmælendum nafnleynd eru ummæli og umfjöllun birt á hans ábyrgð og Kvennablaðsins. Það er alvarlegt þegar farið er fram með rangar fullyrðingar sem síðan eru teknar upp í öðrum fjölmiðlum eins og um blákaldar staðreyndir sé að ræða. Því hafa Ólafur og Hreiðar Már óskað eftir því að Kvennablaðið birtir þessar athugasemdir undir umræddri umfjöllun blaðsins og fara þess á leit við Kjarnann að gera slíkt hið sama."
Kjarninn sagði frá frétt Kvennablaðsins í gær. Ólafur og Hreiðar Már afplána báðir dóma vegna efnahagsbrota á Kvíabryggju.