Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík, sækist eftir formennsku í flokknum. Þetta kemur fram í viðtali við Helga í Fréttablaðinu í dag.
Helgi segir í viðtalinu að Samfylkingin þurfi á „restart-i“ að halda. Flokkurinn sé í djúpri kreppu og margir möguleikar séu í stöðunni fyrir kosningarnar á næsta ári. Til greina komi að breyta nafni flokksins, eða sameinast öðrum flokkum, eins og Vinstri grænum, Bjartri framtíð og Pírötum, í kosningabandalagi eða „breiðfylkingu“ eins og segir á forsíðu Fréttablaðsins.
Ákveðið var á dögunum að flýta landsfundi flokksins með það að markmiði að veita forystu flokksins endurnýjað umboð og freista þess að fá vind í seglin í flokksstarfinu. Árni Páll Árnason, formaður flokksins, sendi flokksmönnum tölvubréf þar sem hann hann fór yfir vanda Samfylkingarinnar, og taldi meðal annars upp mistök sem hann sagði að hefðu átt sér stað á vettvangi flokksins.
Hann sagði meðal annars að flokkurinn hefði gert mistök árið 2007, þegar hann fór í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. „Við gengum þá inn í valdakerfi hinna gömlu flokka, án þess að gera kröfu um grundvallarbreytingar [...] Flest okkar mistök fólust í því sama: Að ganga grónu kerfi á hönd án þess að gera kröfu um grundvallarbreytingar.“
Þá sagði hann flokkinn hafa misst náið samband við verkalýðshreyfinguna og talsamband við atvinnulífið. Þá hafi hann stutt samning um Icesave, sem ekki varði ítrustu hagsmuni þjóðarinnar.