Atvinnulausar konur með háskólamenntun eru fleiri en þær sem einungis eru með grunnskólapróf. Fjöldi atvinnulausra, háskólamenntaðra kvenna tvöfaldaðist á árunum 2012 til 2014. Hlutfall háskólamenntaðra kvenna sem voru atvinnulausar var 15 prósent árið 2012 og fór upp í 36 prósent árið 2014. Á á sama tíma fækkaði þeim mikið sem eru án vinnu og eingöngu með grunnskólapróf, úr 58 prósent í 34,5.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum Félagsvísum sem birtir voru í gær. Félagsvísar eru gefnir út af Velferðarráðuneytinu og Hagstofu Íslands á hverju ári til að varpa ljósi á þróun og breytingar í samfélaginu með því að birta á einum stað tölur og upplýsingar um tiltekna hópa samfélagsins.
1.550 atvinnulausar og menntaðar
Séu fjöldatölurnar skoðaðar kemur í ljós að fjöldi atvinnulausra kvenna með háskólamenntun er 1.550 og hafði þeim fjölgað úr 750 frá árinu 2012. Fjöldi atvinnulausra kvenna einungis með grunnskólamenntun dróst hins vegar mikið saman, úr 2.850 árið 2012 í 1.500 árið 2014.
Atvinnuleysi mest meðal ómenntaðra karla
Sé hlufall atvinnulausra karla með háskólamenntun skoðað fyrir sama tímabil kemur önnur þróun í ljós. Hlutfall atvinnulausra karla með háskólamenntun var 14,6 prósent árið 2012 og lækkaði um rúmt prósentustig árið 2014, þá 13,5 prósent.
Langflestir atvinnulausir karlar eru einungis með grunnskólamenntun, eða 52,5 prósent. 34 prósent þeirra karla sem eru atvinnulausir og eru með starfs- eða framhaldsskólamenntun og eins og áður segir, 13,5 prósent með háskólamenntun.
Aðra sögu er hins vegar að segja með konurnar. Fleiri atvinnulausar konur eru með háskólamenntun en einungis grunnskólamenntun. Hlutfall kvenna án vinnu sem hafa einungis klárað grunnskóla er 34,5 prósent, en 35,6 prósent meðal þeirra sem eru með háskólapróf. Hlutfall atvinnulausra sem lokið hafa starfs- eða framhaldsskólamenntun er 53 prósent meðal karla og 35 prósent meðal kvenna.
Fjórfalt fleiri konur heimavinnandi
Nær fjórfalt fleiri konur en karlar eru skráðar heimavinnandi og því utan atvinnumarkaðar, ellefu prósent kvenna og þrjú prósent karla.
VR sendi frá sér skýrslu í byrjun árs þar sem fram kom að atvinnulausum með háskólapróf hafi aukist um 275 prósent á síðustu 10 árum.