Stjórnvöld í Argentínu hafa náð samkomulagi við kröfuhafa ríkissjóðs landsins, einkum bandaríska vogunarsjóði, vegna gjaldfallinna skulda ríkissjóðs Argentínu upp á samtals 4,65 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 640 milljörðum króna.
Þetta kemur fram á vef Wall Street Journal, en samkomulagið felst meðal annars í því að ríkissjóður Argentínu greiðir upp tiltekinn hluta af skuldum við kröfum, einkum sjóðsstýringafyrirtækið Elliot Management, sem rekur vogunarsjóði sem eiga viðskipti með skuldabréf ríkja og kröfur í þrotabú fyrirtækja.
Samkomulagið þykir marka tímamót fyrir Argentínu sem hefur verið einangrað efnahagslega í nærri fimmtán vegna gjaldfallinna skulda ríkissjóðs, sem ekki hefur tekist að ná samkomulagi um, fyrr en nú.
Upphaflega komust skuldir Argentínu í uppnám vegna þess að ríkissjóður landsins greiddi ekki af þeim á réttum tíma. Samtals um 100 milljörðum Bandaríkjadala. Frá þeim tíma hafa stjórnvöld í Argentínu átt í hörðum deilum við kröfuhafa, einkum vogunarsjóði.
Samkomulagið hefur ekki verið nákvæmlega útlistað, en samkvæmt fyrstu fréttum felur það einkum í sér fyrirframgreiðslu til vogunarsjóða sem síðan fella niður skuldir á móti.