Þingflokkur Pírata hefur hafist handa við að vinna úr samskiptaörðugleikum sínum með hjálp vinnustaðarsálfræðingar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá honum. Þar segir að álagið á þá fáu kjörnu fulltrúa sem Píratar hafi á þingi og í sveitastjórn hafi margfaldast samhliða því að flokkurinn hafi vaxið og dafnað. Vegna þessa hafi þingmenn Pírata átt í samskiptarerfiðleikum, eins og oft vilji verða þegar fólk er undir álagi.
„En við erum þrátt fyrir allt lausnamiðað fólk og höfum því hafist handa við að vinna úr þessum örðugleikum undir handleiðslu vinnustaðasálfræðings. Það hefur verið mannbætandi ferli sem við þingmennirnir njótum nú þegar góðs af með lausnamiðari aðferðafræði um hvernig má vinna betur saman með umburðarlyndi og sátt að leiðarljósi. Það er samhugur meðal þingflokksins að leysa innri ágreining á sem farsælastan hátt og þess vegna höfum við ákveðið í sameiningu að fara þessa leið. Hún hefur þegar borið mikinn árangur á skömmum tíma. Málstaður okkar og stefnumál eru stærri en hvert okkar. Við erum miklu sterkari sameinuð heldur en sundruð og við í þingflokki Pírata teljum okkur koma sterkari og samheldnari út úr þessu heldur en nokkru sinni fyrr."Undir tilkynninguna skrifa Helgi Hrafn Gunnarsson, Birgitta Jónsdóttir og Ásta Guðrún Helgadóttir. Sauð uppúr eftir viðtal um helgina
Samskiptaörðugleikar milli Pírata komu skýrt fram um helgina. Helgi Hrafn var þá í viðtali í Kjarnanum þar sem hann sagði að það væri misskilningur í gangi um að Píratar vilji styttra þing á næsta kjörtímabili. Það sé Birgitta sem sé á þeirri skoðun, en tillaga hennar um málið hafi verið felld á aðalfundi og hann sé ekki sammála henni í málinu.
Birgitta Jónsdóttir sagði að það væri „stórkostlega mikil rangfærsla“ hjá samflokksmanni hennar, þingmanninum Helga Hrafni Gunnarssyni, að tillaga hennar um styttra þing á næsta kjörtímabili hafi verið felld á aðalfundi. „Henni var breytt smávægilega þar sem ákveðið var að hafa það opnara en ella að hafa þetta lengur en 9 mánuði, þetta er þó samkvæmt tillögunni ekki ályktun um lengra tímabil en eitt þing.“ Hún sagðist svo hafa áhyggjur af málinu og að hún hafi útrétt sáttahönd og beðið Helga Hrafn um að fara ekki í viðtöl um ágreiningsmál. Hann hafi því miður ekki virt það.
Helgi Hrafn bað Birgittu í kjölfarið afsökunar.