Hagnaður danska leikfangarisans Lego nam rúmum 9 milljörðum danskra króna, eða 173 milljörðum króna, á síðasta ári. Það er aukning um rúma tvo milljarða danskra króna á milli ára, eða rúm 30 prósent. Samkvæmt ársreikningi Lego námu tekjur fyrirtækisins 35 milljörðum danskra króna í fyrra, eða um 665 milljörðum íslenskra króna. Það er aukning um meira en 25 prósent milli ára.
Stærst í heimi
Lego var yfirlýstur stærsti leikfangaframleiðandi í heimi síðasta haust þegar fyrirtækið skreið fram úr Mattel, sem framleiðir meðal annars Barbie og Fisher Price. Tekjurnar jukust og reksturinn styrktist á sama tíma og ljóst er að stefna forstjórans, Jorgen Vig Knudstorp, hefur virkað vel. Eins og kemur fram í fréttaskýringu Kjarnans um málið frá því í fyrra, byggir Lego vöxt sinn að miklu leyti á samstarfssamningum við vinsæl vörumerki eins og Simpsons og Ninjago, með framleiðslu á kvikmyndum, myndböndum, tölvuleikjum og þáttum sem hafa styrkt vörumerkið enn frekar í sessi.
Tenging Lego-kubbanna sívinsælu við þekkt vörumerki og framúrstefnulega markaðssetningu, hefur reynst afar vel í Bandaríkjunu, sem er stærsta einstaka markaðssvæði fyrirtækisins.