Enginn hefur verið handtekinn eða fengið réttarstöðu grunaðs manns í tveimur málum sem tilkynnt var um í Móabarði í Hafnarfirði með viku millibili í febrúar. Árni Þór Sigmundarson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðbrogarsvæðinu, segir í samtali við Kjarnann að rannsókn málsins standi enn yfir. Ábendingar hafi þó engu skilað og, eins og áður segir, enginn hafi fengið réttarstöðu grunaðs manns eða sakbornings.
„Við höldum áfram rannsókninni, tökum á móti ábendingum og svo eru ákveðin atriði sem við erum að rannsaka þess utan,” segir Árni Þór. Tæknideild lögreglu var send á staðinn í bæði skiptin. Konan er ekki alvarlega slösuð.
Tvisvar lýst eftir svartklæddum manni
Vísir greindi frá því 18. febrúar að lögregla hafi verið kölluð út að íbúðarhúsi við Móabarð í Hafnarfirði, mánudagsmorguninn 15. febrúar. Kona tilkynnti um alvarlega líkamsárás á heimili sínu hvar hún hafði verið ein heima með ungt barn. Samkvæmt heimildum Vísis villti maðurinn á sér heimildir og þóttist vera að lesa af mælum orkufyrirtækis.
Lögreglan gaf út tilkynningu í kjölfar fréttar Vísis þar sem lýst var eftir fölleitum karlmanni, á aldrinum 35 til 45 ára, um 180 sentimetrar á hæð, með svarta húfu, svarta hanska og í svartri úlpu. Lýst var eftir vitnum og vegfarendum sem höfðu orðið mannsins varir. Leitin skilaði engum haldbærum vísbendingum.
Viku síðar, klukkan átta á sunnudagskvöldinu 21. febrúar, fékk lögregla aftur tilkynningu um líkamsárás á sama heimili og ítrekaði lýsingu sína í fjölmiðlum í kjölfarið. Grunur lék á að sami maður hafi komið aftur og veist á ný að konunni.
Frásagnir af vígbúnaði íbúa við Móabarð
Greint var frá því í kjölfar seinni tilkynningarinnar að konunni hafi verið komið fyrir á öruggum stað og að leit lögreglu að manninum standi enn yfir. Í kjölfarið fjölluðu fjölmiðlar um að íbúar við Móabarð væru teknir að vígbúast með haglabyssum og bareflum og gagnrýndu lögreglu fyrir skort á upplýsingum. Lögreglan sendi þá út yfirlýsingu um að ekki væri ástæða til að óttast. Ef hætta verði talin á ferðum grípi lögregla til aðgerða og láti fólk vita. Rannsókn lögreglu stendur enn yfir.