Fjöldi heimilisofbeldismála á höfuðborgarsvæðinu hefur meira en tvöfaldast á milli áranna 2014 og 2015. Margt bendir til þess að fjöldi tilkynninga verði svipaður eða enn fleiri í ár.
Árið 2014 barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 293 tilkynningar um heimilisofbeldi. Árið 2015 voru þær meira tvöfalt fleiri, eða 651. Þetta gerir um tvö mál á dag. Fyrstu tvo mánuði ársins 2016 hafa 111 tilkynningar borist. Þær voru 262 árið 2013 og hefur fjöldinn því aukist um 150 prósent milli tveggja ára.
Ekki hægt á ákæra fyrir heimilisofbeldi
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er ekki hægt að gefa upp fjölda mála sem ákært hefur verið í, þar sem heimilisofbeldi er í dag sem slíkt ekki brot á hegningarlögum. Hægt er að ákæra fyrir brot eins og líkamsárás, eignarspjöll, hótanir eða þess háttar, en ekki er hægt að flokka ákæruna undir flokkinn „heimilisofbeldi” heldur einungis einstök brot.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við starfi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu í júlí 2014. Hún starfaði áður sem lögreglustjóri á Suðurnesjum og náði þar miklum árangri í heimilisofbeldismálum með sérstöku átaki sem bar heitið „Að halda glugganum opnum“. Þegar Sigríður Björk tók við starfi lögreglustjóra í Reykjavík undirstrikaði hún að sérstök áhersla yrði lögð á mál er varða kynbundið ofbeldi; kynferðisbrot, mansal og heimilisofbeldi.
Þverpólitískt frumvarp
Nú liggur fyrir frumvarp á Alþingi um breytingar á almennum hegningarlögum þar sem lagt er til að heimilisofbeldi verði gert að sérstöku hegningarlagabroti. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu mun það breyta skráningu mála innan embættanna, nái frumvarpið í gegn. Þá verði í framhaldinu hægt að sjá feril mála með einfaldari hætti. Flutningsmenn frumvarpsins eru sex og koma úr öllum flokkum. Það eru þau Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki, Karl Garðarson, Framsóknarflokki, Páll Valur Björnsson, Bjartri framtíð, Guðbjartur Hannesson, Samfylkingu, Helgi Hrafn Gunnarsson, Pírötum, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Vinstri grænum.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að með því sé lögð sérstök áhersla á alvarleika brota sem talist geta til heimilisofbeldis. Tilgangur frumvarpsins er að draga úr tíðni heimilisofbeldis, vernda þolendur og um leið taka á vanda gerenda. Skilyrði þess að brot falli undir ákvæðið er að brot beinist gegn maka, fyrrverandi maka, barni eða öðrum sem er nákominn geranda og tengsl þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins. Í Danmörku og Finnlandi hafa sérstök refsiákvæði sem taka til heimilisofbeldis ekki verið lögfest en aftur á móti hefur það verið gert í Svíþjóð og Noregi.