Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, er fyrsti flutningsmaður að nýju frumvarpi um breytingu á lögum um samningsveð, sem oft hefur verið kallað lyklafrumvarp í opinberri umræðu. Meðflutningsmenn hennar eru Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, varaþingmaður flokksins. Í frumvarpi segir m.a.: „Lánveitandi, sem í atvinnuskyni veitir einstaklingi lán til kaupa á fasteign sem ætluð er til búsetu og tekur veð í eigninni til tryggingar endurgreiðslu lánsins, getur ekki leitað fullnustu kröfu sinnar í öðrum verðmætum veðsala en veðinu. Krafa lánveitanda á hendur lántaka skal falla niður þegar lánveitandi hefur gengið að veðinu, enda þótt andvirði þess við nauðungarsölu dugi ekki til greiðslu upphaflegu kröfunnar. Óheimilt er að semja á annan veg en greinir í ákvæði þessu."
Verði frumvarpið að lögum verður lántakanda heimilt að skila einfaldlega lyklunum af fasteign sem hann hefur fengið lán fyrir og lánveitandinn getur ekki gengið að honum að öðru leyti en að leysa til sín undirliggjandi veð lánsins, fasteignina sem keypt var fyrir það.
Á bloggsíðu Pírata segir að frumvarpið byggi á eldra frumvarpi Lilju Mósesdóttur, fyrrum þingmanns Vinstri grænna og síðar stofnanda Samstöðu, sem hún lagði nokkrum sinnum fram á síðasta kjörtímabili. Píratar telja frumvarpið mikilvægan lið í „því að dreifa áhættutöku í fasteignalánum og færa hérlenda lánastarfsemi úr því horfi að áhætta sé einhliða á hendi lántaka."
Píratar eru langstærsta stjórnmálaafl landsins samkvæmt skoðanakönnunum og hafa verið það frá því snemma á síðasta ári. Frá aprílmánuði 2015 hefur fylgi flokksins mælst yfir 30 prósent og í könnun Gallup sem greint var frá í gær mældist það hærra en nokkru sinni áður, eða 35,9 prósent. Neikvæð umræða undanfarið um innanflokksátök hjá Pírötum, þar sem sálfræðingur var meðal annars fenginn til þess að hjálpa til við stilla til friðar, virðist ekki hafa áhrif á fylgi þeirra.