Samkvæmt nýjum lista Forbes, yfir ríkasta fólk heims, er Svíinn Stefan Persson ríkasti Norðurlandabúinn með eignir upp á 21,8 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 2.800 milljörðum króna.
Persson er númer 32 á listanum, en efstur er Bill Gates, stofnandi Microsoft, en eignir hans eru metnar á 75 milljarða Bandaríkjadala.
Persson, sem er 68 ára gamall, er stjórnarformaður tískurisans H&M og á félag hans 28 prósent hlut í fyrirtækinu. Faðir hans, Erling Persson, stofnaði fyritækið árið 1947 en það er sænskt að uppruna, en starfsemi þess er um allan heim. Samkvæmt vaxtaráformum þess er stefnan að fjölga búðum um 10 prósent á ári, sem jafngildir því, þessa dagana, að opna eina nýja búð á degi hverjum, að því er fram kemur í umfjöllun Forbes.
Björgólfur Thor Björgólfsson er eini Íslendingurinn sem kemst á lista í umfjöllun Forbes, en hann er í sæti númer 1.121 með eignir upp á 1,6 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 208 milljörðum króna.