Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri í New York, ætlar ekki að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna. Hann greindi frá þessu í grein á Bloomberg View nú í kvöld.
Bloomberg hafði íhugað að bjóða sig fram sem óháður, þriðji frambjóðandi. Í greininni í kvöld segir hann að þegar hann hafi skoðað tölfræðina hafi það verið ljóst að ef hann tæki slaginn myndi hann ekki vinna.
Jafnvel þótt hann gæti unnið í mörgum ríkjum myndi hann ekki fá þau 270 atkvæði úr kjörmannaráði sem til þyrfti. Með þrjá frambjóðendur væri ólíklegt að nokkur frambjóðandi fengi meirihluta og þá færu völdin til að velja forseta úr höndum almennings og til bandaríska þingsins. Jafnvel þótt hann fengi flest atkvæði almennings og kjörmannaráðs væri mjög ólíklegt að hann bæri sigur úr býtum, „vegna þess að flestir þingmenn myndu kjósa frambjóðanda síns flokks. Flokkshestar í þinginu - ekki bandaríska þjóðin eða kjörmannaráðið - myndu ákveða næsta forseta.“
Þess vegna, meðan repúblikanar eru í meirihluta í báðum deildum þingsins, væru miklar líkur á því að framboð hans myndi leiða til kjörs Donald Trump eða Ted Cruz. „Það er ekki áhætta sem ég get tekið með góðri samvisku.“
Bloomberg fer mjög hörðum orðum um forsetaframbjóðendurna, einna helst Donald Trump og Ted Cruz, í grein sinni. Trump hafi háð þá mestu lýðskrums- og sundrungarkosningabaráttu sem sést hafi, og hafi alið á fordómum og ótta fólks. „Abraham Lincoln, faðir Repúblikanaflokksins, höfðaði til „betri engla“ okkar. Trump höfðar til okkar verstu hvata.“