Helmingur komufluga hjá WOW Air kemur of seint, samkvæmt nýjum tölum frá Dohop. Icelandair er stundvísasta flugfélagið í febrúar, en nokkrar breytingar urðu á milli mánaða. EasyJet, sem var stundvísasta flugfélagið í janúar 2016, er nú óstundvísast þegar kemur að brottförum úr Keflavík, en er aftur á móti stundvísast við lendingar.
Icelandair stundvísast heilt yfir
WOW Air kemur ekki vel út úr könnun Dohop, en helmingur komufluga fyrirtækisins eru sein og er meðalseinkun tæpur hálftími, eða um 26 mínútur. Þegar allt flug er skoðað eru 60 prósent véla WOW Air á réttum tíma.
Tæp 80 prósent brottfara hjá Icelandair eru á réttum tíma, tæp 70 prósent hjá WOW Air og rúm 65 prósent hjá EasyJet. 70 prósent lendinga Icelandair er á réttum tíma og 80 prósent hjá EasyJet.
Í tilkynningu frá Dohop segir að þegar allt flug í febrúar er skoðað sést að Icelandair er stundvísasta flugfélagið og aðeins munar tveimur prósentum á Icelandair og EasyJet. Þó munar heilum 15 prósent á stundvísi Icelandair og WOW Air.
Ánægja með Leifsstöð þrátt fyrir framkvæmdir
Þó að hlutfall óstundvísra véla sé nokkuð hátt þegar á heildina er litið virðist það ekki koma mikið að sök því Keflavíkurflugvöllur lenti í þriðja sæti í alþjóðlegri þjónustukönnun fyrir árið 2015 sem gerð er á vegum alþjóðasamtaka flugvalla, ACI. Í tilkynningu frá Isavia, sem send var fjölmiðlum í morgun, kemur fram að Kaupamannahafnarflugvöllur, Heathrow í London, flugvöllurinn í Porto og Vínarflugvöllur deila þriðja sætinu með Keflavíkurvelli. Í fyrsta sæti voru þrír flugvellir jafnir, Sheremetyevo flugvöllur í Moskvu, Pulkovo flugvöllur í Pétursborg og Sochi flugvöllur.
Haft er eftir Birni Óla Haukssyni, forstjóra Isavia, í tilkynningunni að árið 2015 hafi verið stærsta ár í sögu flugvallarins og háannatímar sumarsins hafi á stundum verið erfiðir fyrir farþega og starfsfólk vegna mikils farþegafjölda og yfirstandandi framkvæmda. Gert er ráð fyrir 37 prósent fleiri farþegum í ár en fóru um flugvöllinn í fyrra. Því séu niðurstöður könnunarinnar sérstaklega ánægjulegar.
Í könnuninni eru farþegar spurðir um sína upplifun af þjónustu flugvallarins og gefa einkunn í fjölmörgum flokkum. Könnunin nær yfir alla þætti ferðarinnar um flugvöllinn, hvort sem er innritun, öryggisleit, þjónusta í verslunum og veitingastöðum, vegabréfaeftirlit, tollskoðun og aðra þjónustu.