Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, og Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, voru í dag sýknuð af ákæru um umboðssvik í Hæstarétti. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Samkvæmt ákærunni samþykktu og undirrituðu Sigurjón og Elín sjálfskuldaábyrgðir Landsbankans á lánasamninga Kaupþings við tvö félög án utanaðkomandi tryggina, þann 4. júlí árið 2006, fyrir hönd Landsbankans. Félögin sem um ræðir voru Empennage Inc. og Zimham Corp., sem bæði voru skráð á Panama. Sjálfskuldaábyrgðirnar hljóðuðu samtals upp á 6,8 milljarða króna, en lán Kaupþings til félaganna voru tryggð með veði í Landsbankanum að nafnverði fyrir samtals 332 milljónir króna.
Þá var þeim Sigurjóni og Elínu sömuleiðis gefið að sök að hafa samþykkt og undirritað sjálfskuldarábyrgð Landsbankans á lánasamning Kaupþings, dagsettan 29. júní 2007, við félagið Empennage Inc, fyrir 6,8 milljarða króna, en umrædd ábyrgð var veitt án utanaðkomandi trygginga.
Sigurjón hefur þegar hlotið tvo dóma í Hæstarétti. Í október 2015 var Sigurjón dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti vegna Ímon-málsins svokallaða. Í byrjun febrúar 2016 var hann síðan fundinn sekur um markaðsmisnotkun í því sem hefur verið kallað stóra markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans. Þar hlaut hann eins og hálfs árs dóm sem bættist við þá refsingu sem hann hafði þegar hlotið. Elín var dæmd í 18 mánaða fangelsi í Ímon málinu.