Stjórnarflokkarnir Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur bæta báðir við sig fylgi samkvæmt nýrri könnun fréttastofu 365 miðla. Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 27,6 prósent fylgi sem er rétt yfir því sem hann fékk í kosningunum 2013. Framsóknarflokkurinn mælist með 12,8 prósent fylgi en fékk 24,4 prósent í síðustu kosningum. Saman myndu stjórnarflokkarnir fá 27 þingsæti - Sjálfstæðiflokkurinn 19 og Framsókn átta - og því eru þeir nokkuð frá því að halda völdum sem stendur.
Píratar mælast sem fyrr langstærsti flokkur landsins neð 38,1 prósent fylgi. Það myndi tryggja þeim 26 þingmenn og ómögulegt væri að mynda tveggja flokka ríkisstjórn án aðkomu þeirra miðað við þá niðurstöðu. Píratar eru í dag með þrjá þingmenn. Samfylkingin og Vinstri græn erum með um átta prósent fylgi hvort samkvæmt könnuninni sem myndi tryggja hvorum flokki fyrir sig fimm þingmenn. Það er töluvert frá kjörfylgi beggja flokkanna en þeir fengu samtals 16 þingmenn 2013, Samfylkingin níu en Vinstri græn sjö. Björt framtíð myndi ekki ná inn manni ef kosið er í dag. Einungis 1,8 prósent aðspurðra segir að þeir myndu kjósa flokkinn.
Kannanir fréttastofu 365 miðla sýna oftast niðurstöðu sem er frábrugðin því sem aðrar kannanir sýna. Í nýjustu könnun Gallup, sem birt var í síðustu viku, mældist Sjálfstæðisflokkurinn til að mynda með 23,7 prósent fylgi og Píratar með 35,9 prósent fylgi. Í nýjustu könnun MMR, sem gerð var í janúar, mældist fylgi Pírata hins vegar nær því sem könnun fréttastofu 365 sýnir, eða 37,8 prósent. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist þó mun lægra, eða 19,5 prósent. Munurinn felst meðal annars í því að mismunandi aðferðarfræði er beitt við gerð kannananna.
Könnun fréttastofu 365 miðla var framkvæmd þannig að hringt var í 1.082 þar til náðist í 794 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 8. og 9. mars. Svarhlutfallið var 73,4 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk? Alls tók 59,3 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.