Salah Abdeslam, grunaður hryðjuverkamaður úr árásunum í París í nóvember síðastliðnum, var mögulega meðal þeirra sem komust undan lögreglunni í Belgíu í skotbardaga í þessari viku. Belgíska lögreglan réðst inn í íbúð í Brussel á þriðjudag og reyndi að handsama þá sem þar voru inni. Skotbardagi upphófst sem endaði þannig að einn grunaður íslamskur öfgamaður var skotinn til bana.
Nú hefur verið staðfest að lífsýni úr Abdeslam fannst í íbúðinni. Fjölmiðlar í Belgíu eru misvarkárir í því að túlka það, sumir segja það líklegt að Abdeslam hafi verið einn þeirra sem komst undan, en aðrir segja aðeins að með því staðfestist að hann hafi verið í íbúðinni á síðustu vikum.
Adbeslam er 26 ára, fæddist í Brussel, er franskur ríkisborgari af marakóskum uppruna. Hann er talinn hafa átt þátt í hryðjuverkaárásunum sem urðu 130 að bana í París í nóvember. Lögregla telur að hann hafi mögulega átt að gera sjálfsmorðsárás, en hafi hætt við. Hann er talinn hafa fylgt þremur sjálfsmorðssprengjumönnum að Stade de France leikvellinum. Bróðir hans sprengdi sig í loft upp á bar á Boulevard Voltaire í árásunum.
Abdeslam hefur verið á flótta frá því að hryðjuverkaárásirnar voru gerðar í nóvember.