Hrannar Pétursson mun væntanlega tilkynna framboð sitt til forseta á heimili sínu nú klukkan ellefu. Fjölmiðlum barst í morgun fréttatilkynning þar sem ekki er greint frá nafni Hrannars, en boðið er til blaðamannafundar að heimili hans í Garðastræti, þar sem „framsýnn og jafnréttissinnaður forsetaframbjóðandi stígur inn í sviðsljósið,“ eins og segir í fréttatilkynningunni.
Kjarninn greindi fyrst frá því fyrir jól að Hrannar íhugaði forsetaframboð. Hrannar er félagsfræðingur, fæddur og uppalinn á Húsavík. Hann var um tíma sjónvarpsfréttamaður fyrir tæpum tveimur áratugum en hefur síðan mest starfað við upplýsinga- og samskiptamál, fyrst hjá ISAL sem á og rekur álverið í Straumsvík og síðar fjarskiptafyrirtækinu Vodafone þar sem hann stýrði einnig mannauðs-, markaðs- og lögfræðimálum. Þá starfaði hann sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu þar til í nóvember 2015, þar sem hann sinnti verkefnum fyrir ráðuneytisstjóra, en rekur nú eigið upplýsinga- og samskiptafyrirtæki.
„Það hafa margir spurt að því á undanförnum vikum hvort ég ætli að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands. Mér þykir vænt um að fólk skuli hugsa til mín sem mögulegs frambjóðanda á sama tíma og það nefnir þörfina á að forseti veiti þjóðinni innblástur, tali fyrir virðingu í samfélaginu og sé bæði sanngjarn og staðfastur. Ég hef tekið þetta til mín en það er stór ákvörðun að bjóða sig fram og hún verður ekki tekin í flýti," sagði Hrannar í samtali við Kjarnann þá.
Forsetaframboð Hrannars virðist njóta stuðnings á heimaslóðum hans á Húsavík því í héraðsfréttablaðinu Skarpi, sem kom út í desember, er skorað á Hrannar að taka slaginn.
Grein um mögulegt forsetaframboð Hrannars í héraðsfréttablaðinu Skarpi.