Eimskip og Samskip hafa ásamt tveimur öðrum fyrirtækjum, Kloosbeheer og Van Bon, verið sektuð af hollenskum samkeppnisyfirvöldum vegna alvarlegs ólögmæts samráðs á frystigeymslumarkaði í Hollandi. Sektirnar eru á bilinu 63 milljónir til 1,3 milljarðar íslenskra króna en ekki er greint frá því í fréttatilkynningu hollenska samkeppniseftirlitsins hversu háar sektir eru lagðar á hvert fyrirtæki um sig.
Um er að ræða þrjú mál þessara fjögurra fyrirtækja. Á árunum 2006 til 2009 höfðu þau með sér samráð um verð, skiptu með sér viðkvæmum samkeppnisupplýsingum og deildu viðskiptavinum með hverju öðru. Með þessu skekktu þau samkeppnismarkað í Hollandi. Í tilkynningunni kemur fram að Kloosbeheer hafi viðurkennt mistök sín og unnið með samkeppniseftirlitinu. Vegna þess hafi sekt fyrirtækisins verið lækkuð um 10 prósent.
Tölvupóstar leiða í ljós ýmiss konar samráð, samkvæmt því sem kemur fram hjá hollenska eftirlitinu. Þannig hafi viðkvæmar upplýsingar oft verið sendar á milli, eins og verð á geymslu á mat, hversu hátt hlutfall geymslna þeirra væri í notkun og svo framvegis. Fyrirtækin samræmdu einnig tilboð til viðskiptavina svo að það var alltaf ljóst hvert þeirra myndi fá viðskiptin.
Fimm stjórnendur í þessum fyrirtækjum voru einnig sektaðir, en hæsta sektin nam rúmum 20 milljónum íslenskra króna.
Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir við Kjarnann að félagið hafi tekið frá 900 þúsund evrur eftir að það var upplýst um að til stæði að sekta það. Samkvæmt ársreikningi nemur sektin þessari upphæð, eða rúmlega 126 milljónum króna. Ólafur segir að fyrirtækið hafi hafið undirbúning að áfrýjun.
Sömu sögu er að segja af Samskipum, en lögmenn fyrirtækisins hafa áfrýjað niðurstöðu samkeppnisyfirvalda og undirbúa aðgerðir á hendur Kloosbeheer, að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu. Félagið segist ekki vera aðili að málinu, heldur beinist það gegn Kloosbeheer og eigendum þess, sem Samskip hafi keypt frystigeymslu af 2005 en selt aftur 2009. Samkvæmt lögum sé ekki hægt að innheimta hærri sektir en 10% veltu þeirra, og samkeppnisyfirvöld krefjist þess að Samskip borgi mismuninn.