Píratar mælast nú með 43 prósent fylgi en stjórnarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, tapa samtals ellefu prósentustigum af fylgi á milli kannanna. Þetta kemur fram í könnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis sem birt var í dag. Könnunin var gerð daganna 4. og 5. apríl.
Fylgi Pírata er það mesta sem flokkurinn hefur nokkru sinni mælst með.
Sjálfstæðisflokkurinn er eftir sem áður næst stærsti flokkur
landsins og mælist með 21,6 prósent fylgi. Það lækkar þó mikið á milli kannanna
miðla 365, en í síðustu könnun fékk flokkurinn samtals 27,6 prósent fylgi. Framsóknarflokkurinn er orðinn næst minnsti flokkur landsins, en 7,9
prósent landsmanna segja að þeir myndu kjósa flokk fráfarandi forsætisráðherra,
Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Fylgi hans hrynur úr 12,8 prósentum á milli kannanna. Samtals mælist því fylgi við sitjandi valdaflokka undir 30 prósent. Í síðustu kosningum fengu þeir samtals 51,1 prósent atkvæða sem dugði til að fá 38 þingmenn og góðan meirihluta á Alþingi.
Þær fordæmalausu aðstæður sem eru uppi í íslensku samfélagi í kjölfar opinberunar á aflandseignum íslenskra ráðamanna og stærstu mótmæla Íslandssögunnar á mánudag, eru ekki að skila öðrum stjórnarandstöðuflokkum en Pírötum mikilli aukningu á fylgi. Vinstri græn mælast með 11,2 prósent og Samfylkingin með 10,2 prósent. Einungis 3,8 prósent segja að þeir myndu kjósa Bjarta framtíð.
Þá sögðust 15,5 prósent ekki ætla að kjósa eða skila auðu, 14 prósent sögðust vera óákveðið en 13,9 prósent svöruðu ekki.
Tæp 70 prósent vilja að Bjarni víki
Í könnuninni var einnig spurt hvort að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ætti að segja af sér ráðherraembætti vegna tengsla sinna við aflandsfélag. Alls vilja 69 prósent þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar að Bjarni víki en 31 prósent ekki. Þá vildu 63 prósent þeirra sem tóku afstöðu að Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, myndi víkja vegna tengsla sinna við aflandsfélag en 37 prósent að hún myndi sitja áfram.
Hringt var í 1.052 í könnuninniþangað til náðist í 800 svarendur og var svarhlutfall því 76,1 prósent. Þátttakendur voru valdir með lagskiptu slembiúrtaki úr þjóðskrá. 56,6 prósent tóku afstöðu til spurningarinnar.