„Fíllinn í herberginu er oft og iðulega notað um stórt og mikið vandamál sem allir vita af en enginn vill ræða eða horfast í augu við. Að mati Samtaka atvinnulífsins er fíllinn í herberginu þögnin um peningastefnu Íslands.“
Sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður stjórnar Samtaka atvinnulífsins, í upphafi erindis síns á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins, í dag. Þar hélt Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, einnig erindi og fjallaði meðal annars ítarlega um peningastefnuna og hvernig hún gæti verið, eftir að höft hafa verið losuð. Skýrlega kom fram hjá honum, að krónan væri ekki að fara fljót frjáls markaði aftur.
Heiðarlegt fólk í rekstri
Björgólfur fór vítt og breitt yfir sviðið, og sagði meðal annars að yfirgnæfandi meirihluta allra þeirra sem væru að stunda atvinnurekstur, gera það af heiðarleika og í takt við lög og reglur. Það væri enda forsenda þess að samfélagið gæti gengið eins og til væri ætlast.
Þá sagði hann skattaskjól með öllu óásættanleg, það er ef menn væru að koma sér undan því að greiða skatta á sömu forsendum og aðrir. „Samtök atvinnulífsins hafa fylgst með starfi Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París til að draga úr möguleikum þess að reka félög í skattaskjólum. Smám saman hefur verið að myndast alþjóðleg samstaða um að hvergi verði staðir til að fela sig í þessu skyni. Það er vel.
Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja og stjórnenda þeirra stunda rekstur sinn af kostgæfni, hófsemd, þrautseigju og heiðarleika eins og almennt tíðkast í daglegu lífi fólks. Ítrekað hefur komið fram í könnunum að flestir eru jákvæðir í garð íslenskra fyrirtækja og að næstum allir eru jákvæðir í garð síns vinnuveitanda.
Við viljum að á Íslandi sé rekið arðbært og ábyrgt atvinnulíf sem bætir lífskjör allra. Í kjölfar hrunsins beittu Samtök atvinnulífsins sér fyrir endurskoðun reglna um stjórnarhætti fyrirtækja. Samtökin hafa endurskoðað verklag sitt við tilnefningu fólks í stjórnir sjóða og stofnana og sett viðmið um hvernig þessar stjórnir skulu starfa. Samtökin hafa tekið einarða afstöðu gegn svartri atvinnustarfsemi og lagt sitt af mörkum til að berjast gegn henni. Það er óásættanlegt ef fyrirtæki og stjórnendur ganga á svig við lög og reglur og greiða ekki til samfélagsins til jafns við aðra. Það má aldrei líðast,“ sagði Björgólfur.
Ábyrgðin er mikil
Hann lagði enn fremur áherslu á að nú hvíldi mikil ábyrgð á stjórnmálamönnum, og tryggja farsæla niðurstöðu við stjórn landsins. „Það hvílir mikil ábyrgð á stjórnmálamönnum landsins ekki síst á tímum pólitískrar óvissu að tryggja farsæld við stjórn landsins, stöðugleika í efnahagsmálum og að leita frekar samstöðu en ágreinings um helstu mál. Það er þá sem reynir á að stjórnmálamenn sýni ábyrgð og láti ekki eigin hag eða flokkshagsmuni ganga framar þjóðarhag.Í ritsafni Davíðs Stefánssonar, frá Fagraskógi Mælt mál er að finna grein sem nefnist Hismið og kjarninn þar sem skáldið kemst svo að orði: „Undirrót heilbrigðs fjárhags er að vekja hjá fólkinu viljann til sjálfsbjargar, viljann til hollra framkvæmda, vilja til að neyta og njóta sinna eigin krafta, andlegra og líkamlegra.“ Skáldið lagði áherslu á að menn ræktu sinn innri mann og sagði: „Þar má rækta samúð, skilning og kærleika, sem auka víðsýni og vit, stækka manninn sjálfan og veröld hans. Því fleiri sem þetta gera, því traustari verður sá grundvöllur, sem þjóðfélagið er reist á, lög þess gerð af meiri spekt og um leið betur búið að æskunni sem landið erfir.“
Undir þetta skal tekið,“ sagði Björgólfur að lokum.