David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að hann verði að taka á sig sökina á því hvernig tekið var á uppljóstrunum um tengsl hans við aflandsfyrirtæki föður hans. Hann ætlar að birta skattaskýrslur sínar aftur í tímann til þess að vera „fullkomlega gegnsær og opinn með þessa hluti. Ég verð fyrsti forsætisráðherrann, fyrsti leiðtogi stórs stjórnmálaflokks, til þess að gera það, en ég held að það sé það rétta í stöðunni.“
Þetta kom fram í ræðu Cameron á vorfundi Íhaldsflokksins í morgun. Hann viðurkenndi þar að vikan hefði ekki verið sérstaklega góð fyrir hann. „Ég veit að ég hefði átt að höndla þetta betur. Ég hefði getað gert þetta betur. Ég veit að ég hef lexíur að læra og ég mun læra þær. Og ekki kenna Downing Stræti 10, eða nafnlausum ráðgjöfum, um þetta. Kennið mér um þetta. Og ég mun læra mína lexíu.“
Bæði Cameron og ráðuneyti hans hafa verið gagnrýnd harðlega fyrir það hvernig tekið var á þessum málum eftir að greint var frá því að Ian Cameron, faðir hans, stýrði fjárfestingasjóði sem kom sér undan að greiða skatt í Bretlandi. Sjóðurinn var á Bahama-eyjum og sá um stórar fjárfestingar fyrir efnamiklar fjölskyldur í Bretlandi. Meðal annars voru gefnar út margar yfirlýsingar þar sem því var neitað að forsætisráðherrann, kona hans eða börn, ættu nokkurn hlut í sjóðnum né að þau myndu hagnast á honum. Á blaðamannafundi á þriðjudaginn, fullyrti hann, og ítrekaði raunar síðar um daginn sömuleiðis, að hann „tengdist með engum hætti aflandsfélagi“.
Cameron viðurkenndi þetta svo í fimmtu yfirlýsingunni, á fimmtudag, og er nú lentur undir mikilli pressu í breska þinginu, sem boðað hefur rannsókn á öllum fjármálum Cameron og annarra þingmanna sem tengjast aflandsfélögum með einum eða öðrum hætti.