Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) útilokar ekki að sett verði lög sem banna vistun eigna á lágskattarsvæðum utan EES-svæðisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Þar segir að grunnreglan um frjálsa fjármagnsflutninga sé sú að ekki séu takmarkanir á flutningi fjármagns milli ríkja sem eiga aðilda að EES-samningnum. Ákvæði hans um frjálsa fjármagnsflutninga gildi hins vegar ekki um önnur ríki.
Þetta er í andstöðu við það sem Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr forsætisráðherra Íslands, sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær. Þar sagði hann að sitt fyrsta verk sem forsætisráðherra, eftir að hann tók við starfinu á fimmtudag, hafi verið að kanna hvort hægt væri að banna Íslendingum að vista peninga í lágskattarríkjum. „Fyrstu svör sérfræðinga eru þau að vegna m.a. jafnræðisreglu EES-samningsins sé það ekki hægt. Mér hefur því þótt sérkennilegt að heyra Evrópusambandssinna, Samfylkinguna og Bjarta framtíð og jafnvel Pírata, sem hafa aðild að Evrópusambandinu á stefnuskrá, tala um að loka eigi á möguleika fólks að vista peningana sína á aflandseyjum. Þetta er alþjóðlegt vandamál,“ sagði Sigurður Ingi.
Sigurður Ingi sagði einnig í viðtalinu að sú umsýsla að Íslendingar skyldu áfram vista eigur sínar á aflandseyjum eftir hrunið sé „vissulega ekki ólögleg en óeðlileg er hún.[...]Ljóst er að það er löglegt. Þannig er þetta fyrst og síðast siðferðislegt álitaefni."
Á fimmtudag í síðustu viku sagði hann Sigurður Ingi úr ræðustóli Alþingis að ekkert væri að því að eiga eignir á lágskattasvæðum ef þeir sem slíkar eigi greiði skatta af þeim eignum. Það væri löglegt á Íslandi og alþjóðlega. Það sé hins vegar verulega mikið að því þegar menn noti slík félög til að komast hjá greiðslu skatta og til að fela fé. Hann hvatti alla þá sem „orðið hafa fyrir því“ að fela peninga eða svíkja undan sköttum að gera hreint fyrir sínum dyrum.