Á síðasta degi sínum sem utanríkisráðherra veitti Gunnar Bragi Sveinsson styrki af ráðstöfunarfé þess embættis upp á 950 þúsund krónur. Fjögur mismunandi félög fengu styrkina. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þjóðdansahópurinn Sporið og Kómendíuleikhúsið á Ísafirði fengu 250 þúsund krónur hvor. Kómedíuleikhúsið fékk styrkin vegna leikferðar til Spánar. Þá fengu Landsbyggðarvinir 150 þúsund krónur og Landsgræðsla ríkisins 300 þúsund krónur vegna ráðstfefnu sem haldin verður í september 2016. Enginn ráðherra utan Gunnars Braga ráðstafaði skúffufé í síðustu viku sinni í ráðuneyti. Gunnar Bragi tók við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í lok síðustu viku og Lilja D. Alfreðsdóttir settist í utanríkisráðuneytið.
Ný ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar tók við völdum í lok síðustu viku í kjölfar þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra. Ástæðan er aflandsfélagaeign Sigmundar Davíðs og eiginkonu hans, sú staðreynd að aflandsfélagið Wintris er kröfuhafi í bú föllnu bankanna og framganga Sigmundar Davíð í heimsfrægu viðtali við sænska sjónvarpsmanninn Sven Bergman og Jóhannes Kr. Kristjánsson, þar sem þáverandi forsætisráðherra laug þegar hann var spurður út í félagið Wintris.