Stjórn Ríkisútvarpsins voru kynnt áform starfsmanna að setningu siðareglna á stjórnarfundi félagsins í september 2014. Þetta segir Guðlaugur Gylfi Sverrisson, formaður stjórnar RÚV, í tilkynningu sem hann sendi í morgun að tilefni færslu Bjargar Evu Erlendsdóttur, fráfarandi stjórnarformanns, og umfjöllunar fjölmiðla. Björg Eva sagði að „grimm ritskoðun" ríkisstjórnarfulltrúa gagnvart RÚV frekar en þjónustusamningsins sjálfs, hafi orðið til þess að hún samþykkti hann ekki og að nýjar siðareglur RÚV hafi ekki verið bornar undir stjórn.
Stjórnin ánægð með siðareglur
Guðlaugur segir að á stjórnarfundinum hafi stjórnarmenn lýst yfir ánægju sinni með að starfsmenn settu sér siðareglur og að enginn stjórnarmaður hafi sett sig á móti því ferli sem nota átti við samningu siðareglna sem kynnt var á þeim fundi.
Starfsfólk Ríkisútvarpsins ohf. setji sér sjálft siðareglur og að það komi skýrt fram í formála að nýsamþykktum siðareglum, annari málsgrein: „Í þeim tilgangi að stuðla að faglegum vinnubrögðum, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og auka traust setur starfsfólk Ríkisútvarpsins sér siðareglur.“
Stjórnarmenn gerðu ekki athugasemdir
Guðlaugur segir að framvinda við vinnu starfsmanna RÚV hafi verið kynnt stjórn í tvígang þar til að drög að siðareglum í nærri endanlegri mynd voru lögð fram á stjórnarfundi sem haldinn var í ágúst 2015.
„Aldrei voru gerðar athugasemdir af stjórnarmönnum við vinnu starfsmanna Ríkisútvarpsins ohf. að siðareglum, á neinum af þeim fundum þar sem stjórn var kynnt innihald væntanlegra siðareglna og staða mála," segir í tilkynningunni. „Hvorki stjórn Ríkisútvarpsins ohf. né mennta- og menningarmálaráðherra komu að samningu siðreglna starfsmanna Ríkisútvarpsins ohf., sú vinna var alfarið í höndum starfsmanna sjálfra."
Björg Eva var harðorð í garð ráðherra og stjórnarinnar í gær og sagðist ætla að segja sig úr stjórninni á næsta aðalfundi, síðar í mánuðinum. Við þessu segir Guðlaugur að Björg hafi sagt frá því fyrr á árinu að hún ætlaði að hætta í stjórn á næsta aðalfundi Ríkisútvarpsins ohf, „enda hafði hún þá tekið við starfi framkvæmdastjóra þingflokks Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, og taldi setu í stjórn Ríkisútvarsins ohf. ekki fara saman með nýju starfi sínu. Aðrar skýringar á ósk hennar að hætta í stjórn Ríkisútvarpsins ohf. eru því nýjar fréttir.“
Siðareglurnar snúa meðal annars að því að starfsfólk RÚV, sem sinni umfjöllun um fréttir eða dagskrárgerð, taki ekki opinberlega afstöðu í pólitík eða umdeildum málum.