Boðað verður til Alþingiskosninga í haust. Þetta fullyrðir forsætisráðuneytið. Í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans til Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra, um hvort hann geti staðfest að kosið verði til Alþingis í haust, segir Benedikt Sigurðarson, aðstoðarmaður hans:
„Eins og fram hefur komið mun verða boðað til kosninga í haust. Dagsetning hefur ekki verið ákveðin."
Sigurður Ingi átti fund með stjórnarandstöðunni í vikunni þar sem hann fullvissaði þau um að kosningum yrði flýtt til haustsins.
Mikill meirihluti vill kosningar 2016
Rúmlega 70 prósent kjósenda vilja að kosið verði í ár. Þetta sýna niðurstöður nýrrar Gallupkönnunar sem RÚV birti í gær. Um var að ræða netkönnun sem gerð var 7. til 13. apríl þar sem spurt var: „Hvenær vilt þú að næstu kosningar til Alþingis fari fram?“
37 prósent vilja að kosið verði innan tveggja mánaða, apríl til júní, 20 prósent vilja kjósa eftir tvo til fjóra mánuði, júní til ágúst, og 15 prósent vilja kosningar eftir fimm til átta mánuði, september til desember. Þetta þýðir að rúmlega 70 prósent vilja kosningar á þessu ári, stærsti hlutinn í vor eða í sumar.
Ásmundur ekki viss með haustkosningar
Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, vildi ekki fullyrða í samtali við Kjarnann í vikunni hvort kosið verði í haust. Varðandi vinnuna sem framundan er tengda kosningabaráttu og öðrum tæknilegum atriðum um kosningarnar sagði Ásmundur:
„Ef kjördagur verður annar en ráðgert var í apríl 2017, taka stofnanir flokksins við. Ég hef engar áhyggjur af öðru en að Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn í kosningar, hvort sem þær verða í haust eða á næsta ári.”
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á Alþingi í gær „stefnt væri að því að kjósa í haust." Hann hefur þó fullyrt að núverandi kjörtímabil verði stytt um eitt löggjafaþing. Ekki komi til greina að samþykkja fjárlög næsta árs á þessu þingi.
„En það skiptir máli að hlutirnir gangi eðlilega fyrir sig hér á þinginu og að það sé einhver framgangur í þeim verkefnum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir,“ sagði Bjarni varðandi haustkosningar.
45 dagar frá þingrofi til kosninga
Til að boða til kosninga áður en kjörtímabili lýkur þarf að rjúfa þing. Þingmenn halda umboði sínu til kjördags, þó að þing hafi verið rofið. En samkvæmt stjórnarskránni þarf að boða til kosninga innan 45 daga frá því að þingrof hefur verið tilkynnt. En þetta á einungis við ef þing er rofið við sérstakar aðstæður, ekki þegar reglubundnu fjögurra ára kjörtímabili lýkur. Rík hefð hefur skapast fyrir því að kjósa á laugardegi.