Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra- og auðlindaráðherra, ætlar ekki að bjóða sig fram í næstu Alþingiskosningum. Hún segir í samtali við Kjarnann að það sé tími til kominn að einhver yngri taki við þeim málum sem Framsóknarflokkurinn hefur verið að vinna að.
„Það er auðvitað sterk löngun í mér að framfylgja sjálf okkar góðu málum," segir Sigrún. „En ég held að aldur og fyrri störf segi mér að nú sé komið gott."
Sigrún hefur verið umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir Framsóknarflokkinn síðan 31. desember 2014.
„Það fer vissulega um mig fiðringur þegar ég hugsa til þess að fara í kosningabaráttu með öll okkar góðu mál," segir hún. „En nú held ég að þetta sé komið gott hjá mér."
Sigrún hefur verið þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður síðan árið 2013. Hún var varaþingmaður Reykvíkinga mars til apríl 1980 og apríl til maí 1982. Sigrún var þingflokksformaður framsóknarmanna árin 2013 til 2015.
Forseti Alþingis hættir líka í haust
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, tilkynnti um helgina að hann ætlaði að hætta á þingi í komandi kosningum. Einar hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í 25 ár.
Einar sagðist hafa tekið þessa ákvörðun með fjölskyldu sinni eftir vandlega íhugun. Hann hafi fengið mikla hvatningu undanfarna daga og vikur um að gefa kost á sér til endurkjörs. Hann sé ákaflega þakklátur fyrir þann hlýhug og traust en það hafi ekki breytt niðurstöðu hans um að hætta.
„25 eru drjúgur tími í starfsævi hvers manns. Tíu sinnum hef ég tekið þátt í kosningabaráttu í sæti þingmanns eða varaþingmanns. Því tel ég tímabært að láta nótt sem nemur og gefa ekki kost á mér til endurkjörs,“ skrifaði Einar á Facebook síðu sína á laugardag.