Brotið er á mannréttindum fjöldamorðingjans og hryðjuverkamannsins Anders Behring Breivik í fangelsinu sem hann dvelur í í Noregi. Þetta er niðurstaða dómstóls í Osló.
Aðstæður Breivik í fangelsinu brjóta gegn grein í mannréttindasáttmála Evrópu, sem bannar ómannúðlega og niðurlægjandi meðferð fanga, segir dómstóllinn. Breivik hefur setið í fangelsi frá því árið 2011, þegar hann var handsamaður eftir að hafa myrt 77 einstaklinga í Osló og Útey. Hann var dæmdur í 21 árs fangelsi ári síðar, sem er hámarksdómur í Noregi, en hægt er að framlengja dóminn ef hann verður enn talinn hættulegur.
Breivik fór í mál við norska ríkið og hefur haldið því fram að brotið sé gegn réttindum hans með því að honum væri haldið í einangrun, að leitað væri á honum daglega og hann væri handjárnaður oftar en eðlilegt væri. Hann kærði einnig ríkið fyrir að bréf sem hann skrifaði í fangelsinu væru lesin áður en þau væru send út.
Dómstóllinn féllst á að það væri brot á mannréttindasáttmálanum að halda honum í einangrun. Ríkinu er gert að greiða honum andvirði rúmlega fimm milljóna íslenskra króna í málskostnað.