Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir var sögð skráð fyrir 77,8 prósenta hlut í fjölmiðlasamsteypunni 365 í gagnagrunni Creditinfo í morgun. Áður var Ingibjörg skráð fyrir sama hlut í fyrirtækinu, en það var í gegn um íslenskt félag og tvö félög sem henni tengdust í Luxemburg. Breytingin var gerð í gær og mbl.is greindi frá. Um mistök var að ræða og hefur Creditinfo sent frá sér tilkynningu þess efnis. Í tilkynningu vegna fréttar mbl.is segir: „Fyrir mistök voru upplýsingar um hluthafa í 365 miðlum hf. ranglega slegnar inn við yfirferð hjá Creditinfo þann 20. apríl 2016. Þar var hlutur Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur skráður 77,8%. Hið rétta er að samanlagður hlutur Ingibjargar og félaga í hennar eigu er 77,8% eins og fram kemur í ársskýrslu félagsins frá 2014, en það eru nýjustu upplýsingar frá félaginu um hluthafa. Creditinfo biðst velvirðingar á þessum mistökum og hafa þau verið leiðrétt.“
Í frétt mbl.is sagði að félagið Moon Capital S.á.r.l., sem er í eigu Ingibjargar í Lúxemburg, hafi átt 55% hlut í 365 miðlum. Félagið ML 102 ehf., dótturfélag Moon Capital S.á.r.l., átti 12,8% hlut, og IP Studium ehf., líka í eigu Ingibjargar, átti 10,1% hlut í 365. Samanlagt átti Ingibjörg tæplega 80 prósenta hlut í 365 í gegn um þessi félög, en með nýju skráningunni hefur hlutur Moon Capital og ML 102 verið færður undir hana beint. Tölurnar byggðu á upplýsingum frá fjölmiðlanefnd og Creditinfo. Um mistök var að ræða.
Fréttin var uppfærð klukkan 14:50 í kjölfar yfirlýsingar Creditinfo.