Nýtt bankaráð Landsbankans hefur verið kosið og Helga Björk Eiríksdóttir er nýr formaður bankaráðs. Aðrir bankaráðsmenn eru Berglind Svavarsdóttir, Danielle Pamela Neben, Einar Þór Bjarnason, Hersir Sigurgeirsson, Jón Guðmann Pétursson og Magnús Pétursson.
Helga Björk Eiríksdóttir segir í tilkynningu að það sé heiður að taka við formennsku, en Tryggvi Pálsson gegndi þeirri stöðu áður.
Eins og kunngt er fór Bankasýsla ríkisins, sem fer með hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum, fram á það, að bankaráðið myndi víkja, vegna þess hvernig Landsbankinn stóð að sölunni á 31,2 prósent hlut í Borgun. Einnig var farið fram á að Steinþór Pálsson myndi víkja sem bankastjóri, en hann var ekki tilbúinn að gera það og bankaráðið, undir forystu Tryggva, taldi það einnig of langt gengið.
Helga Björk segir mikla ábyrgð liggja hjá bankaráðinu. „Það er mér mikill heiður að vera fyrsta konan til að stýra bankaráði Landsbankans. Ég tek þetta ábyrgðarhlutverk alvarlega. Landsbankinn er stærsta fjármálafyrirtæki landsins, eitt stærsta fyrirtæki í landinu og jafnframt ein stærsta og mikilvægasta eign ríkisins. Við, sem störfum fyrir Landsbankann, erum því að vinna fyrir almenning. Við þurfum að sýna því hlutverki virðingu og fara vel með þessa eign okkar allra,“ segir Helga Björk.
Hún segir það vera verkefni bankaráðsins að styrkja bankann, og gera hann að enn „betri banka“. „Okkar hlutverk er að gera Landsbankann að enn betri banka og hann þarf að bjóða viðskiptavinum frábæra þjónustu á samkeppnishæfu verði. Bankinn þarf að vera vel rekinn í góðri sátt við samfélagið þannig að allir geti verið stoltir af honum. Nýtt bankaráð mun ekki láta sitt eftir liggja í þeirri vinnu.“