Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir að hvorki hann né fjölskylda hans tengist aflandsfélögum á nokkurn hátt. Þetta sagði hann í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN í gær. Ólafur var þar spurður hvort það gæti komið upp úr krafsinu síðar meir að hann eða einhver honum tengdur væru í Panamaskjölunum. Ólafur svaraði: „Nei, nei, nei, nei, nei."
Forsetinn sagði að Panamaskjölin væru mikilvæg almannaþjónusta á tímum þar sem gagnsæi ætti að ríkja. Hann fagnaði umfjöllun fjölmiðla um skjölin og sagði fréttirnar áminningu um aðferðir sem orðið hefðu til í fjármálaheiminum og væru ekki liðnar í nútímasamfélögum.
Þáttastjórnandinn Christiane Amanpour spurði Ólaf út í ákvörðun hans um að bjóða sig fram á nýjan leik. Hann sagði vissulega að 20 ár væru langur tími, en það væri stór munur á því þegar einræðisherrar sitja sem fastast í áratugi og þegar lýðræðislega kjörnir fulltrúar séu kosnir aftur.
Hér má horfa á viðtalið við forseta Íslands.