Ríkisskattstjóri hefur tekið 178 mál einstaklinga til sérstakrar skoðunar, og krafist skýringa, vegna misræmis milli framtala og skattaskjólsgagna sem skattrannsóknarstjóri keypti.
Þetta kom fram í fréttum RÚV í kvöld, og er einnig til umfjöllunar á vefnum.
Eftir að skattrannsóknarstjóri keypti gögnin af huldumanni í fyrrasumar voru 30 mál sett í formlega skattrannsókn. Afgangurinn, hátt í 400 mál, var sendur ríkisskattstjóra. Hann hefur nú farið yfir málin, og tekið 178 mál til sérstakrar skoðunar. Ástæðan er misræmi milli gagnanna og skattframtala, sagði í frétt RÚV.
Málin snúa að einstaklingum. Þetta fólk fékk fyrr í mánuðinum sent bréf frá skattinum þar sem það var látið vita að mál þess væru til athugunar og farið fram á skýringar.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri staðfesti þetta í samtali við fréttastofu RÚV.