Vikan hefur verið viðburðarík á Kjarnanum, líkt og í samfélaginu. Fjölmargar fréttaskýringar, fréttir, hlaðvörp og pistlar hafa birst í vikunni og hér verður farið yfir brot af því besta.
Kjarninn kannaði afstöðu allra sitjandi þingmanna og ráðherra til næsta kjörtímabils og komst að því að meirihluti sitjandi þingmanna ætlar sér að bjóða fram krafta sína á ný. Nokkrir eru óákveðnir, aðrir neita að svara og örfáir eru búnir að ákveða að hætta.
Kjarninn birti líka fyrstu fréttaskýringar sínar upp úr Panamaskjölunum, í samstarfi við Reykjavík Media. Fyrstu skýringarnar fjalla um Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörgu Pálmadóttur, og félög sem notuð hafa verið til að fjármagna ýmis verkefni þeirra. Hér má skoða alla umfjöllun Kjarnans úr Panamaskjölunum.
Forsetinn veldur usla
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hélt blaðamannafund í byrjun viku og tilkynnti að í sjötta skipti myndi hann bjóða fram krafta sína í forsetaembættið. Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, fögnuðu báðir ákvörðuninni.
Aðrir voru minna hrifnir, meðal annars rithöfundurinn Jón Kalmann Stefánsson, sem skrifaði bréf til forsetans þar sem hann sagði meðal annars: „Þeir sem kjósa þig eru þar með að kjósa hið gamla Ísland, þeir eru að kjósa samfélag Davíðs Oddssonar, Sigmundar Davíðs og Ólafs Ragnars. Þeir eru einfaldlega að kjósa gegn framtíðinni.“
Þrír frambjóðendur hafa dregið framboð sín til baka eftir ákvörðun Ólafs Ragnars. Farið var yfir það í fréttaskýringu hvernig tilkynning hans snéri kosningabaráttunni á haus.
Brugðist við umboðsmanni
Forsætisráðuneytið hefur brugðist við ábendingum umboðsmanns Alþingis í kjölfar Lekamálsins. Unnið er að nýjum siðareglum í samráði við öll ráðuneyti og búið er að uppfæra reglur um samskipti og erindisbréf fyrir aðstoðarmenn. Þetta var tilkynnt í vikunni, en rúmt ár er liðið frá því að umboðsmaður Alþingis beindi tilmælunum til ráðuneytisins.
Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, úrskurðaði í vikunni að íslensk stjórnvöld þurfi að setja lög sem krefjast þess að alltaf sé greitt markaðsverð þegar orkufyrirtækjum eru veitt réttindi til að nýta náttúruauðlindir í almannaeigu. Farið var ítarlega yfir þetta mál í þessari frétt. ESA kveður einnig á um að íslensk stjórnvöld verði að endurskoða alla gildandi samninga um nýtingu náttúruauðlinda til að tryggja að orkufyrirtæki greiði markaðsverð það sem eftir lifir af gildistíma samninganna.
Og greint var frá því í vikunni að þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra kallaði hann fjölmiðlastjórnendur á sinn fund. Hann hitti hitti þáverandi útvarpsstjóra RÚV, fréttastjóra 365 og ritstjóra 365. Sigurjón Magnús Egilsson greindi frá því að fundur hans með forsætisráðherranum hafi snúist um fréttaumfjöllun hans. Greint var ítarlega frá þessu máli í Kjarnanum.