Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, ætlar að gefa kost á sér til endurkjörs sem formaður flokksins. Árni Páll boðaði til blaðamannafundar í Kringlu Alþingishússins í dag þar sem þetta var tilkynnt.
Ákveðið var að flýta landsfundi Samfylkingarinnar í ljósi slaks fylgis flokksins í skoðanakönnunum. Hann verður haldinn þann 4. júní næstkomandi og verður ný forysta kjörin. Þeir sem hafa boðið sig fram til formanns flokksins eru Oddný Harðardóttir, þingmaður og fyrrverandi fjármálaráðherra, Helgi Hjörvar þingflokksformaður, Magnús Orri Schram, varaþingmaður, og Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi og starfsmaður í félagsmiðstöð.
Katrín Júlíusdóttir varaformaður hefur ákveðið að hætta á þingi eftir þetta kjörtímabil. Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og formaður flokksins í Kópavogi, hefur boðið sig fram í embættið.