Hagvöxtur í Bandaríkjunum var einungis 0,5 prósent á fyrstu þremum mánuðum ársins, sem var langt undir spám flestra greinenda. Flestar spár höfðu gert ráð fyrir 1,4 til tveggja prósenta hagvaxtar.
Á sama tíma í fyrra mældist hagvöxturinn 1,4 prósent.
Þetta eru miklar stærðir fyrir stærsta hagkerfi heimsins. Miklu munaði um að almenn neysla var minni en spár gerðu ráð fyrir en hún jókst um 1,9 prósent milli ára, en á sama tíma í fyrra var aukningin 2,4 prósent.
Fjárfesting fyrirtækja féll niður um 5,9 prósent, sem er mesta fall fjárfestingar milli ára frá árið 2009, þegar fjármálamarkaðir gengu í gegnum mikar hremmingar og kreppa var víða um heim.
Í umfjöllun Wall Street Journal og breska ríkisútvarpsins BBC kemur fram að fjárfesting hjá stórfyrirtækjum í olíuiðnaði hafi falli saman nær alveg, eða um 86 prósent, og greinilegt að verðhrun á olíuverði, á síðustu sextán mánuðum er farið að hafa veruleg áhrif á fjárfestingarákvarðanir fyrirtæki í olíuiðnaði.
Verðið á hráolíutunnunni í Bandaríkjunum er nú í kringum 40 Bandaríkjadali en það fór hæst í 115 Bandaríkjadali fyrir um sextán mánuðum.
Þrátt fyrir að hagvöxtur hafi verið umtalsvert minni en flestar spár gerðu ráð fyrir þá hélt atvinnuleysi áfram að minnka, og er nú komið niður í 4,8 prósent. Það fór hæst upp undir 10 prósent árið 2010.