Bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir voru í Hæstarétti í dag dæmdir til fangelsisvistar. Karl fékk þriggja og hálfs árs dóm en Steingrímur tveggja ára dóm. Málarekstur héraðssaksóknara snérist um að greiðslur upp á 4,8 milljarða króna sem runnu út úr félaginu Milestone, sem bræðurnir áttu og stýrðu, til Ingunnar Wernersdóttur, systur þeirra, á árunum 2006 og 2007, hefðu verið umboðssvik. Karl, Steingrímur og Guðmundur Ólason, fyrrum forstjóri Milestone, voru ákærðir fyrir að hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að greiða Ingunni þessa upphæð út úr Milestone til að losa hana undan eign sinni í félaginu. Auk þeirra voru þrír endurskoðendur hjá KPMG ákærðir í málinu vegna ætlaðra bókhaldsbrota.
Hæstiréttur dæmdi Guðmund í þriggja ára fangelsisdóm. Þá hlutu Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór C. Guðmundsson, endurskoðendur hjá KPMG, bæði 9 mánaða skilorðsbundinn dóm. Hrafnhildur Fanngeirsdóttir endurskoðandi var sýknuð. héraðsdómur Reykjavíkur hafði í desember 2014 sýknað alla sexmenninganna.