Ísland er langt á eftir hinum Norðurlöndunum þegar kemur að frelsi fjölmiðla, samkvæmt lista Fréttamanna án landamæra (e. Reporters without borders), sem gefinn er út í aðdraganda Alþjóðadags fjölmiðlafrelsis, en hann er á morgun.
Ísland er í nítjánda sæti á listanum um frelsi fjölmiðla. Það er tveimur sætum hærra en í fyrra, þegar Ísland var í 21. sæti.
„Þrátt fyrir að stjórnarskráin tryggi algjört málfrelsi hefur staða blaðamanna versnað frá árinu 2012 vegna verri samskipta milli stjórnmálamanna og fjölmiðla,“ segir í umfjöllun samtakanna. Meðal þess sem þau hafa gagnrýnt er málsókn Þóreyjar Vilhjálmsdóttur, fyrrverandi aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, á hendur tveimur blaðamönnum. Niðurskurður á útgjöldum til Ríkisútvarpsins.
Ísland er eina ríki Norðurlandanna sem er ekki meðal efstu tíu ríkjanna. Finnland er á toppnum en Noregur og Danmörk eru í þriðja til fjórða sæti og Svíþjóð er í áttunda sæti. Önnur ríki á meðal efstu tíu ríkjanna eru Holland, Nýja-Sjáland, Kosta ríka, Sviss, Írland og Jamaíka. Kanada og Úrúgvæ eru í sætunum fyrir ofan og neðan Ísland.