Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður hefur krafið fjölmiðlafyrirtækið 365 miðla og fjóra starfsmenn þess um samtals 30 milljónir króna vegna fréttaflutnings af Hlíðarmálinu svokallaða. Krafan er bæði upp á skaðabætur og lögmannskostnað. Auk þess fer hann fram á afsökunarbeiðni. Málið er það langstærsta sinnar tegundar sem upp hefur komið á Íslandi. Þetta kemur fram í DV í dag. Kristín Þorsteinsdóttir, ritstjóri 365 miðla, hefur sagt að fyrirtækið standi við fréttaflutning sinn af málinu.
Kjarninn greindi frá því í gær að 22 kröfubréf hefðu verið send út vegna málsins. Auk 365 miðla og starfsmanna þeirra fengu ýmsir bréf vegna ummæla sem þeir létu falla um málið á samfélagsmiðlum. Vilhjálmur segir í DV í dag að eitt þeirra bréfa sem hann sendi út um helgina sé prófmál þar sem hann ætli að láta á það reyna hvort að dreifing á færslu á samfélagsmiðlum geti flokkast sem opinber dreifing á ærumeiðandi ummælum. Komist dómstólar að því að svo sé gætu allir þeir 2.350 sem deildu færslu þar sem skjólstæðingar hans í málinu, tveir ungir menn, voru nafngreindir, myndir birtar af þeim og þeir kallaðir nauðgarar.
Íbúð sögð búin tækjum til ofbeldisiðkunar
Forsaga málsins er sú að Fréttablaðið birti forsíðufrétt í nóvember síðastliðnum undir fyrirsögninni: Íbúð í Hlíðunum útbúin til nauðgana. Áður hafði verið sagt frá rannsókn lögreglu á tveimur aðskildum kynferðisbrotamálum vegna meintra árása í fjölbýlishúsi í Hlíðahverfi í Reykjavík í október. Tvær konur kærðu tvo karlmenn fyrir kynferðisbrot í málinu og í frétt Fréttablaðsins sagði að „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar“. Fram kom í fréttinni að mönnunum hafði svo verið sleppt að lokinni skýrslutöku.
Mikil reiðialda reis í kjölfar fréttarinnar, boðað var til mótmæla fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu og mennirnir voru nafngreindir á samfélagsmiðlum og birtar af þeim myndir.
Rannsóknir á nauðgunarkærunum fóru á borð héraðssaksóknara og lét hann bæði málin niður falla. Annar maðurinn hafði einnig kært aðra konuna fyrir kynferðisbrot en það mál var líka látið niður falla.
Vilhjálmur sagði í samtali við Kjarnann í gær að mögulegt sé að stefnurnar verði tvær, annars vegar ómerking ummæla og miskabætur, og svo verði höfðað sérstakt mál um skaðabætur fyrir fjártjón, atvinnutjón, varanlegan miska og varanlega örorku. Að sögn Vilhjálms eru mennirnir tveir enn atvinnulausir og í sálfræðimeðferð eftir fréttaflutninginn.