Fylgi Pírata minnkar um átta prósentustig milli síðustu kannanna MMR. Fylgi flokksins mælist nú 29 prósent og er enn með mesta fylgið. Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst um rúm fimm prósentustig milli kannanna og er nú tæp 28 prósent. Fylgi Framsóknaflokksins jókst sömuleiðis, um tvö og hálft prósentustig, og er nú rúm 11 prósent.
Þó að Píratar hafi fengið mest fylgi samkvæmt könnuninni (28,9%) mælist ekki marktækur munur á fylgi Pírata og Sjálfstæðisflokksins (27,8%).
Vinstri græn mældust með 14 prósenta fylgi í könnuninni, sem er nær fimm prósentustiga aukning síðan um miðjan marsmánuð. Fylgi Samfylkingarinnar mældist tæp 10 prósent og fylgi Bjartrar framtíðar 3,5 prósent.
Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 33 prósent sem er um 7 prósentustigum meira en í síðustu mælingu, sem gerð var dagana 4. til 5. apríl.
Könnunin var gerð dagana 22. apríl til 26. apríl 2016. 953 einstaklingar svöruðu.