Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands, lýsti í dag formlega yfir framboði sínu til embættis forseta Íslands. Þetta gerði hann á fundi í Salnum í Kópavogi.
„Kæru vinir, góðir Íslendingar. Í sumar göngum við til forsetakjörs. Ég verð þar í framboði,“ sagði hann í upphafi fundarins og uppskar dynjandi lófaklapp. Hann þakkaði svo fundargestum fyrir komuna og stuðninginn.
Hann sagðist bjóða sig fram vegna þess að hann hafi mjög ákveðnar hugmyndir um það hvernig forsetaembættið ætti að vera.
„Forseti Íslands er málsvari landsins á alþjóðavettvangi, andlit okkar í augum heimsins. Hann á að styðja við menningu og listir, atvinnu- og viðskiptalíf. Í þessum atbeina sínum fyrir Íslands hönd á forseti Íslands að vera stoltur en hógvær, hann á að vera kappsamur án yfirlætis, “ sagði Guðni meðal annars. Forsetinn gegni mikilvægu hlutverki í stjórnskipan landsins. Forseti hljóti að láta sig varða endurskoðun stjórnarskrár, í hana verði að koma ákvæði að tilskilinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál.
„Stjórnarskrárbreytingar skipta engu máli ef valdhafar bregðast trausti og trúnaði fólksins. Við öll, almenningur í landinu, biðjum ekki um mikið. Við biðjum ekki um fullkomið samfélag, fullkomna valdhafa. Við biðjum einfaldlega um að ráðamenn í samfélaginu séu heiðarlegir, standi við orð sín og hafi ekkert að fela.“