Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er hættur við að bjóða sig fram til formanns á nýjan leik. Þetta kemur fram í tölvupósti sem hann sendi til flokksmanna Samfylkingarinnar rétt í þessu.
Í póstinum segir Árni Páll að hann geti ekki horft framhjá því að um hans persónu og sýn sé ekki eining og atburðarásin á og frá síðasta landsfundi flokksins veki honum efasemdir um að eining geti skapast með hann sem formann. „Mín byði því erfið barátta, innan flokks sem er í sárum, sem enginn veit hverju myndi skila.“
Hann segir að staða flokksins sé óásættanleg. „Sem fyrr vara ég flokksfólk við að halda að á henni séu einfaldar lausnir. En hugsjónir jafnaðarmanna þurfa samhentan og skynsaman flokk sem ber þær fram og persónur geta ekki staðið þeim framar. Ég hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs sem formaður flokksins.“
Hann segist óendanlega þakklátur öllu stuðningsfólki sínu um land allt fyrir stuðning og hvatningu. „Þjóðin á skilið að eiga öflugan jafnaðarflokk, sem styður þann formann sem flokksmenn velja til forystu í allsherjaratkvæðagreiðslu. Ég mun gera mitt til að svo verði. Vonandi birtist sá flokkur þjóðinni 4. júní næstkomandi og sýnir sig tilbúinn til verka.“
Árni Páll tilkynnti í síðustu viku að hann myndi sækjast eftir endurkjöri sem formaður flokksins.
Þetta þýðir að fjórir frambjóðendur munu berjast um formannsstólinn í Samfylkingunni í byrjun júní. Helgi Hjörvar, Oddný Harðardóttir, Magnús Orri Schram og Guðmundur Ari Sigurjónsson eru öll búin að lýsa yfir framboði til formanns.