Á bilinu 40 til 50 manns hafa verið orðaðir við forsetaembættið á einn eða annan síðan Ólafur Ragnar Grímsson sagðist á nýjársdag ekki ætla að bjóða sig fram aftur. Fyrst um sinn var nafn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, hvað mest í umræðunni en hún gaf það úr síðar eftir töluverða umhugsun að hún ætli ekki að bjóða sig fram. Jón Gnarr lét líka bíða svolítið eftir sér þar til hann sagði nei. Ólafur Jóhann Ólafsson mældist lengi með yfirburði í könnunum. En nöfn þeirra eiga ekki lengur við.
Nú eru það Guðni Th. Jóhannesson, Andri Snær Magnason og Ólafur Ragnar Grímsson sem líklegast eftir að berjast um fylgið í skoðanakönnunum. Halla Tómasdóttir er eina konan sem hefur mælst með yfir tveggja prósenta fylgi í könnunum. Guðni er að mælast með meira fylgi heldur en Andri Snær, þó að hann hafi einungis tilkynnt framboð sitt á fimmtudag. Mun fleiri hafa þó verið orðaðir við embættið án þess að hafa gefið það út að þeir hafi verið að hugsa málin á nokkurn hátt.
Tíminn er naumur
Enginn hefur enn skilað inn gildu framboði til innanríkisráðuneytisins, en frestur til þess rennur út á miðnætti 20. maí. Fyrir þann tíma þarf að vera búið að skila inn umsóknum og 1.500 gildum undirskriftum, skipt niður á milli landsfjórðunga.
Í dag eru þrettán manns í framboði til forseta. Fimm hafa dregið framboð sitt til baka eftir að Ólafur Ragnar skipti um skoðun og enn fleiri hafa íhugað alvarlega, en ákveðið að taka ekki slaginn. Mikill fjöldi hefur legið undir feldinum fræga og ekki eru allir enn komnir undan honum, en Sigrún Stefánsdóttir og Stefán Jón Hafstein hafa ekki gefið upp ákvörðun sína. Síðustu viku helltust þrjár konur úr lestinni: Guðrún Nordal, Ellen Calmon og Berglind Ásgeirsdóttir. Skoðanakannanir og umræður í fjölmiðlum hafa þó ekki dregið allan vind úr frambjóðendum, sem eru hvergi af baki dottnir.
Bjartsýnir frambjóðendur
Guðrún Margrét Pálsdóttir segir það ekki líta út þannig núna að hún gæti unnið slaginn. „En ég trúi því að allt geti gerst,” segir hún. Halla Tómasdóttir hefur ekki verið í Reykjavík í rúma viku og hefur ferðast um landið. „Ég fæ mjög góðar undirtektir,” segir hún. „Það er of snemmt að dæma um hvernig fer. Baráttan byrjar ekki fyrr en fresturinn rennur út.”
Hildur Þórðardóttir segir að allt sé á fullu og að hún sé að verða búin að safna undirskriftum. „Ég á alveg séns. Um leið og fólk fær að kynnast mér þá segja allir sem ég hitti: Þú ert mitt val, minn kostur. Ég vil sjá þig á Bessastöðun. Ég finn mikinn stuðning,” segir Hildur.
Sturla Jónsson er að reyna að koma frá sér þeim undirskriftum sem hann hefur safnað. Hann er bjartsýnn á framhaldið þó að hann hafi ekki verið að mælast hátt í stærri skoðanakönnunum. „Ég ætla að halda mig við könnun á Útvarpi Sögu, þá hafði ég 34 prósent. Ég er ekki hafður með í öllum skoðanakönnunum, að mér skilst,” segir hann.
Benedikt Kristján Mewes gerir sér engar vonir um sigur. „Ég held alls ekki að ég geti unnið, en mig langar ekki að gefast upp. Samkeppnin er mjög hörð en það þýðir ekki að draga framboð mitt til baka og valda fólkinu sem hefur skrifað undir vonbrigðum,” segir hann. Hann er kominn með um 100 undirskriftir.
Elísabet Kristín Jökulsdóttir er enn á fullu að safna undirskriftum og gengur vel. „Ég held ótrauð áfram,” segir hún. „Þetta snýst um að komast á næsta stig, inn í framboðið. Annars er fjögurra mánaða vinna fyrir bý.”