Framsóknarflokkurinn myndi tapa fjórtán þingsætum ef kosið yrði í dag og yrði minnsti þingflokkurinn. Hann fengi einungis fimm þingmenn en er með 19 sem stendur. Miðað við framboðslista flokksins fyrir kosningarnar 2013 yrðu einu þingmennirnir sem myndu halda sæti sínu Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Höskuldur Þórhallsson, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. Flokkurinn fengi engan þingmann í Reykjavík. Þetta er meðal þess sem fram kemur í úrvinnslu á skoðanakönnun 365 miðla sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Þar mælist Framsóknarflokkurinn mælist með 8,3 prósent fylgi samkvæmt henni en fékk 24,4 prósent í kosningunum 2013. Ríkisstjórnin væri kolfallinn ef þetta yrði niðurstaða kosninga. Hún fengi 26 þingmenn en er í dag með 38.
Samfylkingin er annar flokkur á þingi sem myndi tapa þingmönnum. Í dag er flokkurinn með níu þingmenn en myndi einungis fá sex ef kosið væri í dag. Fylgi flokksins mælist 8,4 prósent og því ekki marktækur munur á fylgi hans og Framsóknar. Björt Framtíð mælist með fjögur prósent fylgi og næði ekki inn manni. Flokkurinn er með sex þingmenn í dag.
Píratar mælast stærsti flokkur landsins með 31,8 prósent fylgi. Það myndi tryggja þeim 22 þingmenn en þeir hafa þrjá í dag. Því er ljóst að þorri þeirra þingmanna ofangreindir þrír flokkar tapa myndu fara til þeirra. Næst stærsti flokkur landsins samkvæmt könnuninni er Sjálfstæðisflokkurinn með 29,9 prósent fylgi. Yrði það niðurstaða kosninga myndi flokkurinn bæta við sig frá því síðasta og fá tvö ný þingsæti, 21 alls. Einungis Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn gætu myndað tveggja flokka ríkisstjórn.
Vinstri græn virðast vera að fá aukin meðbyr samkvæmt síðustu könnunum og mælast nú með 14 prósent fylgi. Það myndi þýða að flokkurinn fengi níu þingmenn en hann er með sjö í dag.
Síðustu kannanir sem hafa verið birtar hafa allar sýnt mikla hreyfingu á fylgi. Helst hafa það verið Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn sem hafa verið að bæta við sig en Píratar að missa lítillega af því mikla fylgi sem mælst hefur við þá undanfarið rúmt ár.
Könnunin var framkvæmd 2. og 3. maí. Hringt var í 1.161 manns þar til náðist í 797 samkvæmt lagskiptu úrtaki. Svarhlutfall var 68,6 prósent en 59,9 prósent tóku afstöðu til spurningarinnar.