Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir nauðsynlegt að bregðast skjótt við þeirri þróun sem hefur átt sér stað í Mývatni undanfarið. Jón sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem segir að yfirvöld verði að bregðast við með sama hætti og þegar brugðist er við náttúruhamförum af fullum þunga.
„Skipa verður hóp sérfræðinga sem greinir vandann og kemur með tillögur um úrbætur. Fámennt sveitarfélag ræður ekki við verkefnið og því verður ríkisstjórnin/þingið að tryggja það fjármagn sem til þarf," segir Jón. „Það má engu til spara og sumarið má ekki líða án þess að það sé notað til þeirra framkvæmda sem nauðsynlegar eru. Viðkvæm náttúruperla á heimsvísu er undir og afleiðingar aukins straums ferðamanna með tilheyrandi álagi á náttúruna eru kannski að birtast okkur hér með hvað skýrustum hætti. Ábyrgð okkar er mikil og málið þolir enga bið. Þetta mál brýnir einnig mikilvægi umræðu um gjaldtöku í ferðaþjónustunni."
Ástandið alvarlegt
Fram kom í yfrlýsingu Veiðifélags Laxár og Krákár í lok apríl, þar sem skorað var á yfirvöld umhverfismála, bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstigi, að bregðast við því alvarlega ástandi sem lýst hefur verið í lífríki Laxár og Mývatns í Suður-Þingeyjasýslu. Lífríki Mývatns og Laxár hefur verið undir miklu álagi undanfarna áratugi og svæðið er á rauðum lista Umhverfisstofnunar fjórða árið í röð.
„Kúluskíturinn, sem aðeins finnst á einum öðrum stað í heiminum, er horfinn og botni Mývatns má líkja við uppblásinn eyðisand," sagði í yfirlýsingunni. Þá sagði ennfremur að bleikjan hafi verið nánast friðuð undanfarin ár, til að koma í veg fyrir útrýmingu og sílastofn í sögulegri lægð.