Helsta kosningamál Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum verður að verja stöðugleika á Íslandi með því að standa gegn kerfisbreytingum og nýrri stjórnarskrá. Auk þess muni flokkurinn beita sér fyrir bættri stöðu ungs fólks og í velferðar- og heilbrigðismálum á breiðum grundvelli. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun.
Þar ræddi hann einnig um þátttöku föðurbróður hans í kaupum á Borgun, samskipti fyrrverandi forsætisráðherra og forseta Íslands í byrjun apríl þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar féll og um sölu ríkiseigna.
Getur ekki látið hagnað „einhvers frænda“ trufla sig
Páll spurði Bjarna út í aflandsfélagaeign hans sjálfs og föður hans og hvort hún þvældist fyrir honum í stjórnmálum dagsins í dag. Sömuleiðis spurði Páll Bjarna um hvort Borgunarmálið, þar sem Einar Sveinsson föðurbróðir Bjarna var gróðamegin, þvældist fyrir honum. Bjarni sagði engan hafa geta sýnt fram á að hann hafi komið að Borgunarmálinu með nokkrum hætti. Þótt „einhver frændi“ hans hafi hagnast þá geti hann ekki látið það trufla sig. Landsbankinn hafi alfarið borið ábyrgð á málinu.
Það sé líka fráleitt að halda því fram að hann hafi sýnt tregðu gagnvart því að kaupa skattagögn sem sýndu aflandsfélagaeign Íslendinga, vegna þess að hann væri sjálfur í gögnunum. Hann hefði ávallt skráð félagið með réttum hætti í skattagögnum. Þetta séu pólitískar árásir sem hann sé orðinn vanur. Minna sé hins vegar um að ráðist sé á stefnu Bjarna, sem sýni að menn eigi „lítið í hann“ á þeim vettvangi.
Bankinn hafi viðurkennt mistök
Páll ræddi nokkuð mikið um Borgunmálið svokallaða við Bjarna og benti meðal annars á að bankastjóri Landsbankans, Steinþór Pálsson, sitji áfram og nýr formaður bankaráðs Landsbankans hafi setið í því þegar ákvörðun um söluna á Borgun var tekin.
Bjarni svaraði því til að ekki mætti gera lítið úr því að bankinn hefði viðurkennt mistök í málinu og breytt verklagi. Bankinn hefði brugðist við með skýrum hætti. Ef hann færi sem fjármálaráðherra að vísa mönnum úr stólum sínum þá væri hann kominn út fyrir þann ramma sem sé til staðar í lögum. Bjarni skipi í stjórn Bankasýslu ríkisins sem ráði síðan stjórn bankans og hún ráði bankastjórann.
Umræðan einkennileg
Bjarni ræddi einnig um sölu þeirra miklu ríkiseigna sem nú er framundan. Hann telur fólk treysta ríkisstjórninni til að selja þær eignir. Greinarmun verði að gera á bönkunum tveimur, Landsbankanum og Íslandsbanka, sem ekki standi til að selja á þessu ári og þar af leiðandi ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar. Til að selja bankanna verði að vera breið sátt.
Umræðan um sölu á stöðugleikaframlaginu sé hins vegar einkennileg. Þau séu peningalegar eignir og kröfur sem mjög auðvlet sé að koma í verð. Síðan séu þar að finna skráð og óskráð hlutabréf. Ríkið hafi ekkert að gera með skráð hlutabréf og mikill áhugi sé þegar kominn fram frá fyrrverandi eigendum óskráðu bréfanna um að kaupa þau. Leiðin til þess að losa um þær eignir sé að bjóða þær út og hafa gott jafnvægi milli þess að hámarka verðið og að hafa fyrirkomulagið á sölunni þannig að öllum gefist jöfn tækifæri til að bjóða.
Trúnaðarbrestur milli Sigmundar Davíðs og forseta
Í upphafi viðtalsins ræddi Bjarni um að það hefði orðið trúnaðarbrestur milli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, og Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í byrjun apríl þegar Ólafur Ragnar hélt blaðamannafund til að útskýra ákvörðun sína um að synja Sigmundi Davíð um heimild til þingrofs. Bjarni sagðist hafa setið með Sigmundi Davíð milli klukkan níu og tíu þá um morguninn, og þar hafi hann ekki látið þess getið að hann væri á leið til Bessastaða að óska eftir heimild til þingrofs. Það hafi hann hins vegar gert klukkan tólf. „Þetta var allt mjög óvanalegt," segir Bjarni.
Bjarni staðfesti í viðtalinu, með fyrirvara, að kosningar verði í október. Sá fyrirvari sé sem fyrr að þingstörf gangi fram með eðilegum hætti. Þessa daganna gangi þingið þó vel og mál fái fram að ganga.
Aðspurður um hver þrjú helstu kosningamál Sjálfstæðisflokksins verði í haust sagði Bjarni að Sjálfstæðisflokkurinn myndi í fyrsta lagi beita sér fyrir áframhaldandi stöðugleika í landinu og að ríkið verði rekið með ábyrgum hætti. Að passað yrði upp á að kerfum verði ekki kollvarpað og að ekki verði tekin upp ný stjórnarskrá. Í öðru lagi þyrfti að koma betur til móts við yngstu kynslóðirnar í landinu, sérstaklega varðandi húsnæðiskaup. Staða hennar sé þó bjartari en staða ungs fólks hafi nokkru sinni verið. Í þriðja lagi verði velferðarmál og heilbrigðismál í breiðum skilningi kosningamál.